Lífið

Hið framandi er spennandi og mögulegt

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Védís Ólafsdóttir hefur starfað og stundað nám í átta löndum um ævina þrátt fyrir ungan aldur og ferðast um fjölmörg önnur. Hún hefur kennt krökkum klifur í Kína, unnið hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Malaví og ferðast vítt og breitt um Ísland. Í dag býr Védís í Jórdaníu en hún líkir ástandinu í landinu við logn miðað við storminn sem geisar í löndunum í kring.

„Það er ótrúlega fínt að búa í Jórdaníu. Ég hef aldrei átt jafn auðvelda lendingu í neinu landi og það var mjög vel tekið á móti mér. Fólk er elskulegt og á meðan klassíski frasi Íslendingsins er „how do you like Iceland?“ þá er klassíski frasinn hér „ahlan wa sahlan“ sem þýðir velkomin,“ segir Védís Ólafsdóttir þegar hún er spurð um hvernig það sé að búa í Jórdaníu.

Védís ólst upp í Selásnum í Reykjavík eða á borgarmörkunum eins og hún segir sjálf. Hún eyddi flestum sumrum annaðhvort úti í leikjum með krökkunum í götunni eða á flakki um landið með foreldrum sínum og tveimur systrum í troðfullum bíl með tjald.

Fjölskyldan ferðaðist ekki til útlanda í sumarfríum heldur valdi frekar að búa í eitt ár og síðar hálft ár í Bandaríkjunum og Kanada 1989 og 1997. Védís segist því ung hafa fengið tækifæri til að fá hugmynd um stærð heimsins og að hið framandi sé spennandi og mögulegt.

„Ég gat ekki beðið eftir að fara í skipti­nám í menntaskóla, og eftir eina önn í MH fór ég til Kosta Ríka í eitt ár. Þar bjó ég í litlum bæ uppi í fjalli með yndislegri fjölskyldu og vinum, sem ég hef heimsótt þrisvar síðan. Á meðan ég bjó þar ferðaðist ég bæði til Gvatemala, Níkaragva og svo ári seinna heimsótti ég tvíburasystur mína í Perú.“

Smituð af fjallabakteríunni

Útþrá Védísar lét aftur á sér kræla þegar hún hafði lokið menntaskóla en hún ákvað þó að flytja ekki mjög langt í það skiptið, heldur fór í nám í Danmörku til að læra alþjóðahagfræði og stjórnmálafræði í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. „Ég hafði ferðast dálítið með MH-kórnum og haustið 2007 fórum við til Kína. Ég varð forvitin um þessa stóru þjóð, næststærsta hagkerfi heims. Ég var að læra alþjóðlega hagfræði og stjórnmálafræði en vissi ekkert um Kína. Ég fór því í skiptinám til Peking ári síðar og var einmitt þar þegar allt hrundi á Íslandi og ákvað í kjölfarið að það væri ekki alveg vit í að vera áfram í Danmörku, reikningsdæmið hafði gjörbreyst. Sumarið eftir fór ég því heim til Íslands og hóf meistaranám í þjóðfræði í HÍ,“ útskýrir Védís.

Þegar heim var komið langaði Védísi að gera eitthvað sem hún gæti ekki gert í Danmörku og skráði hún sig í Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík. Í kjölfarið fékk hún útivistar- og fjalladellu. „Foreldrum mínum, líffræðingunum, hafði greinilega tekist að sá nokkrum fræjum á ferðalögum okkar um Ísland þegar ég var krakki, en undraveröld Íslands að vetri til bættist við, svo og fjallamennskan og klifrið. Ég byrjaði að vinna fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn og í kjölfarið fór ég að príla fjöll, kletta, jökla og fossa í öllum mínum frítíma.“

Eftir mastersnámið langaði Védísi að taka sér frí og þá leitaði hugurinn aftur til Kína. „Þar starfaði ég í alþjóðlegu umhverfi og skipulagði ferðir fyrir börn og unglinga alls staðar frá sem búsett voru í Kína. Ég átti frábært ár 2013 þar sem ég klifraði brött fjöll Kína á milli þess sem ég kenndi krökkum klifur, sig eða hjólaði um bæinn þar sem ég bjó, Yangshou. Haustið 2015 fór ég svo sem starfsnemi Þróunar­samvinnustofnunar Íslands til Malaví þar sem ég kynntist í fyrsta skipti landi í Afríku. Það var ómetan­legt tækifæri og mjög einstakt,“ lýsir Védís brosandi.

Friðsæll hversdagur

Nú í sumar flutti Védís til Jórdaníu með íslensku friðargæslunni til að vinna hjá UNRWA, flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínubúa. „Jórdanía er nokkuð frjálslegt land og afsannar margar hugmyndir fólks um Miðaustur­lönd. Jórdanía er frábær staður fyrir mig að búa á, ég fæ tækifæri til að vinna í krefjandi umhverfi sem mig hefur alltaf dreymt um og á sama tíma hef ég aðgengi að klettaklifri, gljúfraferðum og annarri útivist. Amman er mjög sjarmerandi borg þar sem hún er byggð á hæðum og húsin byggð upp brattar hlíðar. Það er jafnvel fjögurra hæða munur að framan og aftan á einu húsi.

Almenningssamgöngur um borgina eru ekki góðar og það getur verið gríðarleg umferð. Það er synd að mollin hafa dálítið tekið yfir borgina og mannlífið finnst helst í þeim að kvöldi til. Hverfið sem ég bý í er þó frekar líflegt og fólk á kaffihúsum og veitingastöðum fram eftir. Þrátt fyrir þurrt og heitt loftslag stærstan hluta ársins, getur orðið mjög kalt. Yfirleitt er öllu lokað ef það er snjór og hálka – já, það snjóar í Jórdaníu, enda kæmust engir bílar upp og niður brattar brekkurnar á sumardekkjunum,“ segir hún í léttum dúr.

Jórdanía á landamæri að Ísrael og Palestínu, Sýrlandi, Írak og Sádi-Arabíu. Því er ekki að undra að fólk velti fyrir sér hvernig ástandið í landinu sé en Védís segir að það sé erfitt að ímynda sér að örfáum kílómetrum frá því sem hún býr sé það ástand sem lesa megi um í fréttum. „Í Jórdaníu hefur verið ákveðið logn í storminum sem geisar í kring. Það eru atvik sem fréttir berast af alla leið til Íslands, til dæmis umsátur og gíslataka nú í vikunni, en þau gerast einnig í Evrópu. Hversdagurinn er friðsæll og lífið hefur sinn gang. Ófriðurinn hefur auðvitað áhrif á Jórdaníu. Landið er mikið ferðamannaland, en það má nefna fornu borgina Petru, rómverskar rústir um allt og hafnarborgina Aqaba við Rauðahafið, þar sem er mikið af kóralrifum og marglitum fiskum. Í kjölfar stríðsins í Sýrlandi hefur straumur ferðamanna til Jórdaníu minnkað mikið, nánast horfið. Í Petru, þar sem áður biðu þúsundir ferðamanna í röðum til að komast inn, koma nokkur hundruð í dag. Mikill straumur flóttamanna til landsins hefur einnig áhrif á atvinnumöguleika. Erlendir íbúar, sem koma lengra að en frá nágrannalöndunum, starfa margir með hjálparsamtökum eða Sameinuðu þjóðunum, en mörg hjálparsamstök hafa höfuð­stöðvar sínar í Amman, sérstaklega fyrir Sýrland og Jemen. Það er athyglisvert að í manntali Jórdaníu í fyrra var tæplega þriðjungur af 9,5 milljónum landsmanna ekki með jórdanskt ríkisfang.“

Útþráin sprottin af forvitni

Þegar Védís er beðin um að útskýra hvers vegna hún sé haldin þessari miklu útþrá segir hún hana komna af forvitni um að þekkja meira en fallega, litla Ísland. „Veröldin breytist við það að búa erlendis og tækifærið til að búa svo ung úti gerði bæði tungumál og líf á framandi stöðum svo viðráðanlegt. Ég fylgdist alltaf með erlendum fréttum og langaði alltaf að kunna mikið af tungumálum. Fyrir nokkru var ég einmitt að spjalla við mann frá gömlu Júgóslavíu og minntist á það við hann að ég myndi vel eftir Bosníustríðinu. Við spjölluðum aðeins um það áður en ég áttaði mig á að ég var bara sex ára þegar það var.“

Við þessa lesningu um Védísi myndu eflaust margir lýsa henni sem ævintýragjarnri en hún er ekki alveg tilbúin að samþykkja það, segir það fara eftir því hvernig ævintýragirni er skilgreind. „Ég er til dæmis algjör kveif í ýmsu hversdagslegu en ef ævintýragirni felst í því að vita ekkert hvar ég verð eftir fjóra mánuði þá er ég ævintýragjörn. Ég fór til Jerúsalem um helgina og hugsaði með mér að mér hefði aldrei dottið í hug að ég yrði á flakki á milli Jórdaníu og Palestínu/Ísraels fyrir ári þegar ég þvældist um Malaví. Lífið er svo ótrúlega magnað og skemmtilegt.“

Haustið 2015 fór Védís sem starfsnemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til Malaví þar sem hún kynntist í fyrsta skipti landi í Afríku. Það var ómetanlegt tækifæri og mjög einstakt að hennar sögn.
Jólin heima

Védís kemur til Íslands í dag til að vera með fjölskyldu sinni, systrum sínum tveimur, bróður og foreldrum um jólin en þetta verður í fyrsta skipti í mörg ár sem systkinin verða öll saman um jólin. „Mamma mín er mikið jólabarn og þegar ég er á leið til útlanda á nýjan stað spyr hún yfirleitt fyrst hvort ég komi ekki heim um jólin. Ég ákvað fyrir ekki svo löngu að svo lengi sem ég verð ekki með meira en sjálfa mig að bera, þá reyni ég að koma heim um jólin,“ segir Védís og bætir við að það séu bara þrenn jól sem hún hafi ekki verið heima.

„Fyrst var ég með fjölskyldunni í Bandaríkjunum. Í annað skiptið var ég í Kosta Ríka sem skiptinemi. Þar skiptir 24. desember litlu máli og klukkan sex á aðfangadag, þegar mér fannst að það ætti nú að vera eitthvað að gerast, var enginn kominn heim, svo ég fór bara út að hlaupa. Í þriðja skiptið var ég í Kína í skipti­námi. Ég og íslenskur vinur minn ákváðum þá að hittast á aðfangadag og fara í IKEA, eina jólalega staðinn í Peking.“

Það er mikið af jólahefðum í fjölskyldu Védísar í sambandi við mat og tímasetningar. Hún segist lengi hafa verið í mótþróa gegn hefðunum og enn eimi dálítið eftir af honum. „Ég er kannski loksins aðeins að þroskast, og er farin að njóta hefðanna meira. Við systurnar höfum þó haldið jólapartí síðustu ár, sem mér finnst núna ómissandi hluti af hátíðunum,“ segir Védís full tilhlökkunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×