Handbolti

Sigvaldi ætlar ekki að gera það sama og Hans Lindberg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson og Hans Lindberg.
Sigvaldi Guðjónsson og Hans Lindberg. Mynd/Samsett Getty og aarhushaandbold.dk
Sigvaldi Guðjónsson er ekki þekktasti handboltamaður Íslands en það gæti verið að breytast haldi strákurinn áfram að spila eins og vel og hann hefur gert í vetur.

Sigvaldi, sem er 22 ára örvhentur hornamaður, hefur staðið sig vel með Árósarliðinu í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Sigvaldi flutti út til Danmerkur með fjölskyldu sinni fyrir tólf árum en hann ákvað að vera áfram úti þegar foreldrar hans fluttu heim fyrir fjórum árum síðan.

Sigvaldi er í viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í dag og þá er hann spurður út í Hans Lindberg.

Hans Lindberg átti íslenska foreldra sem fluttu út til Danmerkur þar sem hann ólst upp. Lindberg ákvað hinsvegar að velja það að spila fyrir danska landsliðið en ekki það íslenska.

„Ég ætla ekki að taka Hans Lindberg mér til fyrirmyndar í þeim efnum,“ svaraði Sigvaldi.

„Stefnan er tekin á íslenska landsliðið í framtíðinni. Það er mitt helsta markmið. Mig langar rosalega mikið til þess að fá tækifæri með landsliðinu fyrr en síðar. Til þess veit ég að ég verð að vera duglegur áfram að æfa,“ sagði Sigvaldi í umræddu viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í dag.

Hans Lindberg hefur orðið tvisvar Evrópumeistari með Dönum og unnið auk þess tvenn silfurverðlaun á HM. Hans hefur alls skorað 620 mörk í 229 landsleikjum fyrir Dani.  

Sigvaldi hefur leikið með Århus Håndbold frá 2015 en var þar á undan í herbúðum Bjerringbro/Silkeborg.

Sigvaldi býr með kærustunni út í Danmörku en öll fjölskyldan er flutt heim og því er strákurinn á leiðinni heim til Íslands í jólamatinn á aðfangadag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×