Lífið

Aaron Isak er nemi í Tækniskólanum: Lýsir fatastíl sínum sem "rosalega kynreglubrjótandi“

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
"Ég myndi lýsa honum sem rosalega "kynreglubrjótandi“ eða "androgynous“. Ég leita að fötum sem ná að endurspegla minn persónuleika og er ennþá að þróa útlit mitt.“  mynd/Elín Páls
"Ég myndi lýsa honum sem rosalega "kynreglubrjótandi“ eða "androgynous“. Ég leita að fötum sem ná að endurspegla minn persónuleika og er ennþá að þróa útlit mitt.“ mynd/Elín Páls
Aaron Isak Berry stundar nám í fataiðn í Tækniskólanum. Í frístundum semur hann tónlist sem hann setur á YouTube og lýsir fatastíl sínum sem "rosalega kynreglubrjótandi“. Hann vonast til að koma lagi úr eigin smiðju út á nýju ári.



„Áhugi minn á fötum og tísku kviknaði þegar ég var í kringum 14 ára. Tónlistin tekur samt við þegar ég klára skólann því þó svo ég hafi áhuga á fataiðn hef ég ákveðið að stefna á tónlistarbransann þar sem Elín Páls, kær vinkona mín, hjálpar mér með tískuákvarðanir í framtíðinni,“ segir Aaron Isak Berry, nemandi í fataiðn við Tækniskólann, en hann hefur verið iðinn við að semja tónlist heima hjá sér og setja á You­Tube.

Aaron Isak Berry semur RnB tónlist í frístundum og stundar nám í fataiðn í Tækniskólanum. mynd/gva
„Ég hef verið að semja RnB/popptónlist síðustu tvö árin heima hjá mér. Ég hef samt verið án lagasmiðs í langan tíma og þess vegna á ég ekkert í flestu undirspili sem ég hef verið að nota. Það þýðir að ég get ekki selt né spilað í útvarpi ennþá, en sá dagur mun koma,“ segir Aaron og vonast til þess að þetta sé upphafið að farsælum tónlistarferli.

„Ég vil trúa því. Ég er í sambandi við nokkra lagasmiði og stefni á að koma fyrsta lagi í spilun fyrir lok næsta árs. Það er helsta markmið mitt fyrir næsta ár. Svo er ég búinn að vera að syngja aðeins á almenningsstöðum og held því áfram til þess að þjálfa sviðsframkomuna. Vonum bara það besta,“ segir hann hress.

„Ég hlusta rosalega mikið á Mariah Carey, Hailee Steinfeld og Bruno Mars. Ég hlusta mikið á old school RnB og nútíma popptónlist og langar líka til þess að semja þannig tónlist sjálfur.“

„Áhugi minn á fötum og tísku kviknaði þegar ég var í kringum 14 ára. Tónlistin tekur samt við þegar ég klára skólann,“ segir Aaron Isak. mynd/úr einkasafni
Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum?

„Ég myndi lýsa honum sem rosalega „kynreglubrjótandi“ eða „androgynous“,“ segir Aaron sposkur. „Ég leita að fötum sem ná að endurspegla minn persónuleika og ég er ennþá að þróa útlit mitt. Nýjustu kaupin mín eru reyndar jólapeysa! Ekkert voðalega sérstakt,“ segir Aaron og skellir upp úr.

 

Hver eru bestu fatakaup sem þú hefur gert?

„Úff, nú fæ ég valkvíða. Ég vil nefnilega trúa því að 95% alls sem ég hef keypt hafi verið góð ákvörðun.“

En þau verstu?

„Það mun vera svitaband sem ég keypti hjá store­envy.com. Það er ekki minn stíll þó það sé mjög sætt.“

Hver verða næstu skref í tónlistinni?

„Ég stefni bara eins langt og hægt er, að hrista upp í tónlistarbransanum í Bandaríkjunum og mig langar til að vera fyrirmynd hinsegin fólks og tákn sérstöðu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×