Körfubolti

FSu-strákarnir streyma í Stykkishólm

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Svanlaugsson tekur hér vel á móti nýjum leikmönnum.
Gunnar Svanlaugsson tekur hér vel á móti nýjum leikmönnum. Mynd/Fésbókarsíða Snæfells
Snæfell er byrjað að styrkja lið sitt fyrir átökin í Dominos-deild karla í körfubolta og Hólmarar sækja nýju mennina sína á Selfoss.

Tveir leikmenn sem féllu með FSu-liðinu í vor ætla að vera áfram í Dominos-deildinni og hafa ákveðið að skipta yfir í Snæfell. Þetta eru miðherjinn Maciej Klimaszewski og skotbakvörðurinn Geir Elías Úlfur Helgason.

Maciej Klimaszewski og Geir Elías Úlfur Helgason voru ekki í stórum hlutverkum hjá FSu á síðasta tímabili en þeir fengu báðir dýrmæta reynslu af Dominos-deildinni.

„Maciej Klimaszewski skrifaði í dag undir eins árs samning við Snæfell en þessi hávaxni leikmaður mun fá ærið verkefni næsta vetur að fylla skarð Stefáns Torfasonar í teig Snæfellinga. Maciej er uppalinn á Hvolsvelli og lék með '95 landsliði Íslands og er efnilegur leikmaður hérna á ferðinni sem lék síðustu ár með FSu. Maciej skoraði 2.4 stig að meðaltali í leik fyrir FSu á síðustu leiktíð á rúmum 8 mínútum í leik," segir um komu Maciej á fésbókarsíðu Snæfells.

„Geir Elías Úlfur Helgason skrifaði undir eins árs samning við Snæfell í dag, en þessi spræki bakvörður lék með FSu á síðustu leiktíð þar sem hann var með 2.4 stig að meðaltali í leik á 10 mínútum í leik. Geir er uppalinn hjá Hrunamönnum á Flúðum en hefur leikið með FSu síðustu ár. Geir er örvhentur bakvörður sem hefur mikinn metnað og spennandi að fylgjast með honum á næsta tímabili," segir um Geir á fésbókarsíðu Snæfells.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×