Körfubolti

Magnús Þór aftur í Skallagrím

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. Vísir/Vilhelm
Magnús Þór Gunnarsson er hættur með Keflavík og mun spila með nýliðum Skallagríms í Domino´s deild karla í körfubolta á næsta tímabili. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Skallagríms.

Magnús Þór er annar reynsluboltinn sem semur við Skallagríms á stuttum tíma en liðið hafði áður samið við Darrell Flake.

Það er ekki langt síðan að Magnús Þór var síðast í Skallagrími því hann lék með liðinu seinni hluta 2014-15 tímabilsins. Hann hefur einnig spilað með Grindavík og Njarðvík en er Keflvíkingur og hefur spilað stærsta hluta ferils síns þar.

Magnús var með Keflavíkurliðinu á síðasta tímabili og bjuggust flestir við því að hann myndi klára feril sinn með Keflavík en svo er ekki.

„Engum blöðum er um það að fletta að hér er um gríðarlega öflugan leikmann að ræða og er mikill fengur fyrir Skallagrímsliðið. Magnús hefur leikið fjölda stórleikja og unnið fjöldann allan af titlum á löngum og glæsilegum ferli," segir í fréttatilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Skallagríms.

Magnús Þór Gunnarsson var með 10,0 stig, 2,2 fráköst og 1,8 stoðsendingar að meðaltali á 20,4 mínútum með Keflavík í Domino´s deildinni á síðasta tímabili.

„Hann mun því bæta við mikilli reynslu og sigurhefð í ungt Skallagrímsliðið sem hefur nú bætt við sig tveimur gæða leikmönnum með mikla reynslu í þeim Magnúsi Þór og Darrell Flake," segir ennfremur í fréttatilkynningunni.

Magnús Þór lék ellefu leiki með Skallagrím í  Domino´s deildinni 2014-15 og var þá með 15,0 stig og 2,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×