Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, grillaði heilan vísund ofan í leikmenn sína í gær og fjölskyldur þeirra er allir sem koma að liðinu áttu saman góða stund í Árósum fyrir átökin á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu.
Guðmundur er mikill grillsérfræðingur og virðist fara létt með að grilla þessar risasteikur ofan í sína menn sem voru mættir í veisluna hjá þjálfaranum ásamt konum sínum og börnum.
„Frábær vísundur frá Kanada grillaður af landsliðsþjálfaranum og étinn í stórum skömmtum. Nú erum við klárir fyrir Ríó 2016,“ segir Guðmundur á Facebook-síðu sinni þar sem hann birtir stutt myndband af sér að grilla vísundarsteikurnar.
Það þurfti væntanlega ekkert minna en vísund til að fæða beljaka á borð við Henrik Toft-Hansen, Jesper Nöddesbo, Mikkel Hansen og félaga í danska landsliðinu sem ætla sér stóra hluti á Ólympíuleikunum.
Smá pressa er á Guðmundi eftir úrslitin á síðustu tveimur stórmótum sem voru hans fyrstu sem þjálfari danska liðsins. Hann tapaði fyrir Spáni í átta liða úrslitum HM 2015 í Katar og hafnaði þar í fimmta sæti. Á EM í Póllandi í byrjun árs spilaði Danmörk svo um fimmta sætið og tapaði fyrir Frökkum en vonbrigði voru fyrir danska liðið að komast ekki í undanúrslit á hvorugu mótinu.
Dönsku strákarnir eru með Frökkum, Króötum, Túnis, Katar og Argentínu í riðli á Ólympíuleikunum. Guðmundur fór á síðustu þrenna Ólympíuleika sem þjálfari Íslands og náði best öðru sæti í Peking 2008 eins og frægt er orðið hér heima.
Fyrsti leikur Dana verður gegn Argentínu 7. ágúst.
Guðmundur grillaði heilan vísund ofan í danska landsliðið
Tómas þór Þórðarson skrifar

Mest lesið

Vandræði KR við nýja völlinn: „Hér var bara mýri og ruslahaugur“
Íslenski boltinn



Liverpool gæti orðið meistari strax á miðvikudag
Enski boltinn

„Hagsmunum félagsins best borgið með sölu á leikmanninum“
Íslenski boltinn





Saka ekki alvarlega meiddur
Enski boltinn