Körfubolti

Oddur, eigum við að hitta eitthvað i næsta leik?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson og Oddur Kristjánsson.
Haukur Helgi Pálsson og Oddur Kristjánsson. Vísir/Anton
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Njarðvík tryggðu sér oddaleik á móti Íslandsmeisturum KR á föstudagskvöldið eftir 74-68 sigur í Ljónagryfjunni í gær.

Mjög góð frammistaða þeirra Jeremy Martez Atkinson (29 stig, 15 fráköst) og Maciej Baginski (17 stig, þrir þristar) og frábær seinni hálfleikur hjá fyrirliðanum Loga Gunnarssyni (12 af 16 stigum sínum í seinni hálfleik) áttu mestan þátt í sigri Njarðvíkinga í gær.

Lykilmennirnir Haukur Helgi Pálsson og Oddur Kristjánsson gátu hinsvegar ekki keypt sér körfu þetta kvöld. Saman nýttu þeir félagar aðeins 2 af 21 skoti sínu í leiknum.

Haukur Helgi hitti úr 1 af 10 skotum sínum og aðeins 3 af 6 vítum en Oddur hitti úr 1 af 11 skotum sínum og klikkaði jafnframt á eina víti sínu.

Haukur Helgi grínaðist með það á Twitter eftir leikinn í gær og það eru vissulega góðar fréttir að Njarðvík eigi tvo byrjunarliðsmenn alveg inni í sóknarleiknum fyrir oddaleikinn á morgun.

„Hvað segirðu @Oddurrk eigum við að hitta eitthvað i næsta leik?," skrifaði Haukur Helgi og Oddur svaraði að bragði með: „Haha! Jájá ég er til."

Haukur Helgi Pálsson og Oddur Kristjánsson spiluðu báðir félaga sína uppi en þeir voru báðir með átta stoðsendingar í þessum leik. Haukur tók líka átta fráköst og spilaði orkufreka vörn á Bandaríkjamanninn Michael Craion.

Nú er að sjá hvort þeir Haukur Helgi og Oddur komist í gírinn fyrir úrslitaleikinn. Haukur skoraði 26,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann hitti úr hverju risaskotinu á fætur öðru en hann hefur aðeins skorað 12 stig samtals í síðustu tveimur leikjum.

Oddur hefur aftur á móti ekki hitt neitt allt einvígið en hann hefur bara skorað samtals 15 stig í leikjunum fjórum og klikkað á 33 af 37 skotum sínum utan af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×