„Þetta leggst mjög vel í mig, það er geggjað að fá að spila á Þjóðhátíð í Eyjum, ég hef aldrei farið þangað áður,“ segir tónlistarmaðurinn og leiklistarneminn Sigurbjartur Sturla Atlason, betur þekktur sem Sturla Atlas.
Gaukur Grétuson, betur þekktur sem GKR, tekur í sama streng: „Ég hef aldrei farið á Þjóðhátíð áður og ég hlakka bara til að spila. Ég veit ekki hversu spenntur ég er því ég var bara að fá að vita að ég sé að fara að spila þarna,“ segir rapparinn GKR léttur í lundu.
Annar rappari, Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, hefur einnig verið geysilega vinsæll undanfarið ár en hann hefur aldrei farið á Þjóðhátíð. „Mér líst bara megavel á þetta, það er sturlað að vera að fara að spila í Eyjum. Ég setti mér markmið þegar ég byrjaði að rappa að ég ætlaði að spila á Solstice 2015 og að spila í Eyjum 2016 og það er að ganga upp,“ segir Herra Hnetusmjör fullur tilhlökkunar.

Allir listamennirnir sem fram koma á Húkkaraballinu í ár hafa verið mjög vinsælir undanfarið ár. Sturla Atlas sló í gegn þegar hann sendi frá sér lagið Over Here í maí á síðasta ári og í kjölfarið fylgdu lög á borð við San Francisco og Snowin. GKR sendi frá sér lagið Morgunmatur í október á síðasta ári og má segja að lagið hafi skotið honum upp á stjörnuhimininn því það varð mjög vinsælt. Þá hefur Herra Hnetusmjör einnig verið að gera það gott og voru lögin Selfie, Hvítur bolur og Jámarh sem komu út á síðasta ári mjög vinsæl.

„Það er allt krjúið að fara þannig að ef það er eitthvað geðveikt veður þá erum við ekkert að fara taka fyrstu vél heim,“ bætir Herra Hnetusmjör við.
GKR er þó á öðru máli er varðar staldur í Eyjum. „Ég held ég verði ekki yfir helgina. Ég held ég spili og fari svo aftur til baka,“ segir GKR léttur í lundu.
Allir eru þeir að vinna í nýju efni og má því vænta þess að helstu slagarar verði fluttir á ballinu í bland við nýtt efni.
Húkkaraballið fer fram fimmtudaginn 28. júlí en ekki liggur fyrir hvar ballið fer fram, það hefur ýmist farið fram Höllinni, Fiskiðjusundinu eða Týsheimilinu. Miðasala fer fram á dalurinn.is.