Körfubolti

Taka stöðuna á Kára í upphitun í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kári Jónsson.
Kári Jónsson. vísir/anton
Það er ekki útilokað að Kári Jónsson spili með Haukum gegn Þór í kvöld þó svo hann hafi fengið heilahristing og tognað í baki og hálsi á föstudag.

„Við munum taka stöðuna á honum í upphitun,“ segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, er Vísir heyrði í honum fyrir hádegið.

„Honum líður ágætlega og hefur ekki verið með nein einkenni. Sjúkraþjálfarinn okkar tók höfuðhöggapróf á honum í gær sem hann stóðst.“

Sjá einnig: Ívar um Kára: Verður vonandi svimalaus í dag

Það hefur verið mikil umræða um alvarleika höfuðhögga í íslenskum íþróttum síðustu misseri. Almenna reglan er sú að ef íþróttamaður verður fyrir höfuðmeiðslum að þá hvílir hann í sjö daga.

„Við erum ekki að fara að taka neina áhættu. Ef að hann finnur fyrir einhverju eða fær einhver einkenni að þá spilar hann ekki. Við förum með þrettán manns til Þorlákshafnar og verðum við öllu búnir.“

Þór vann fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar og Haukar verða að svara í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Körfuboltakvöld hefur upphitun klukkan 18.30 og leikurinn hefst svo klukkan 19.15.

Hér að neðan má sjá er Kári meiðist er Ragnar Nathanaelsson fer harkalega í hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×