Lífið

Illa lyktandi menn og bara notalegt

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Það fer vel um strákana í The Vintage Caravan í hljómsveitarrútunni.
Það fer vel um strákana í The Vintage Caravan í hljómsveitarrútunni.
Hljómsveitin The Vintage Caravan er um þessar mundir á tónleikaferð um Evrópu, sem er jafnframt fyrsta tónleikaferð sveitarinnar um álfuna sem aðalnúmer. „Við erum á sex vikna tónleikaferðalagi, sem er ansi svakalegt, mjög þétt prógramm. Þetta er fyrsti evrópski „headline“-túrinn okkar, þar sem við erum aðalbandið og ferðumst með tveimur upphitunarhljómsveitum í stórri rútu sem við búum í meðan á tónleikaferðalaginu stendur,“ segir segir Óskar Logi Ágústsson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar. Um er að ræða 35 tónleika í þrettán löndum á sex vikum.

Óskar Logi kvartar þó ekki yfir farartækinu sem hann og félagar hans ferðast um í. „Við erum á flottum „tourbus“. Þetta er ansi fínt, flott rúm, tvær setustofur, illa lyktandi menn og bara notalegt,“ segir Óskar Logi léttur í lund.

Sveitin gerði út frá Danmörku 2014 og 2015 en er þó komin heim. „Eins og er búum við á Íslandi, við bjuggum í Sønderborg árin 2014 og 2015, dótið okkar er komið heim en til að auðvelda okkur ferðalögin þá verðum við líklegast í íbúð í Belgíu í sumar.“



Það eru meðal annars flott rúm og tvær seturstofur í „tourbus-inum“
Hljómsveitin sendi á dögunum frá sér nýtt tónlistarmyndband við lagið Babylon.

„Félagar okkar í Sympatico gerðu þetta glæsilega vídeó, þeir unnu einnig við myndbandið okkar seinasta, Crazy Horses. Myndbandið nýja er tekið upp á ýmsum stöðum, Sandvík, Víðinesi, Sundhöll Hafnarfjarðar, Gauknum og dómhúsinu.“ Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Þó svo að sveitin sé að kynna nýjustu plötuna sína, Arrival, á tónleikaferðinni segir Óskar Logi þá vera byrjaða að semja nýtt efni. „Við erum að vinna að nýju efni, það sem er komið er mjög hresst og skemmtilegt að mínu mati. En við erum ekki að flytja þessi lög á tónleikum eins og er, aðallega efni af Arrival og eitthvað af Voyage-plötunni líka.“

Mikið er um að vera hjá sveitinni á næstunni og spilar hún meðal annars á Wacken-hátíðinni. „Það er slatti bókað, við förum til Möltu, Rússlands og Grikklands í apríl. Við erum að spila á Wacken í annað sinn í sumar, sem er mikill heiður. Við spilum á fullt af öðrum hátíðum og svo er tónleikaferðalag eftir sumarið. Ætli við tökum ekki svo upp í lok árs, þetta er allt að koma í ljós.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×