Íslenski boltinn

Sóley: Erum voða rólegar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sóley vonast til að lyfta bikarnum í leikslok.
Sóley vonast til að lyfta bikarnum í leikslok. vísir/anton
Það er nóg að gera hjá stuðningsmönnum ÍBV um helgina enda leika bæði karla- og kvennalið félagsins til úrslita í Borgunarbikarnum.

Konurnar ríða á vaðið í kvöld þegar þær mæta Íslandsmeisturum Breiðabliks og á morgun mæta karlarnir ríkjandi bikarmeisturum Vals.

Sóley Guðmundsdóttir er fyrirliði kvennaliðsins og hún segir að draumurinn sé að koma heim með báða bikarana.

„Það væri algjör draumur og vonandi tekst það hjá okkur,“ sagði Sóley en kvennalið ÍBV er í fyrsta sinn í bikarúrslitum í 12 ár.

Sjá einnig: Gjörólíkur leikstíll liðanna

Eyjakonur byrjuðu tímabilið illa en koma á góðu skriði inn í bikarúrslitaleikinn eftir sex sigra í síðustu sjö leikjum í deild og bikar.

„Það er góð stemmning í liðinu og við erum að safna stigum í deildinni og vonandi hjálpar það okkur á föstudaginn [í dag],“ sagði Sóley. En hvað þarf ÍBV að gera til að vinna Breiðablik í leiknum í kvöld?

„Spila okkar fótbolta og skora fleiri mörk en þær. Við erum með mjög fljóta og hættulega sóknarmenn og vonandi koma þær boltanum í markið,“ sagði Sóley.

Blikaliðið býr yfir meiri reynslu af stórum leikjum Eyjakonur en þrátt fyrir það hefur Sóley ekki áhyggjur af því að spennustigið verði of hátt hjá leikmönnum ÍBV.

„Nei, við erum voða rólegar og hlakkar til að spila. Við ætlum að njóta þess,“ sagði Sóley að endingu.

Bikarúrslitaleikur Breiðabliks og ÍBV hefst klukkan 19:15. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Þá verður einnig hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×