Enski boltinn

Guardiola vill ekki nota Yaya í vörninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaya Toure og Pep Guardiola.
Yaya Toure og Pep Guardiola. Vísir/Getty
Yaya Toure kom inn í lið Manchester City um síðustu helgi og sló í gegn með því að skora tvö mörk í 2-1 útisigri á Crystal Palace í sínum fyrsta leik fyrir Pep Guardiola.

Vincent Kompany, fyrirliði og miðvörður Manchester City, verður frá keppni á næstunni vegna meiðsla og þar gæti fjölhæfni Yaya Toure komið sér vel.

Pep Guardiola gaf þó það út á blaðamannafundi í dag að hann ætlaði ekki að leysa forföll í vörninni með því að færa Yaya Toure aftur í miðvörðinn.

„Yaya getur spilað margar stöður á vellinum en ég tel að við höfum aðra möguleika en hann í miðvarðastöðurnar,“ sagði Pep Guardiola.

„Hann spilaði einu sinni í þessari stöðu með Barcelona en það var í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hann spilaði þá af því að við vorum í miklum vandræðum og vantaði leikmenn í þessa stöðu. Hann spilaði stórkostlega,“ sagði Pep Guardiola.

„Yaya mun spila í sókndjarfari stöðum á vellinum. Hann verður að vera í stöðu til að gefa síðustu sendinguna, til að skora og til að hjálpa okkur að búa til góðar sóknir á síðasta þriðjungnum,“ sagði Pep Guardiola.

„Það gæti kannski gerst að ég noti hann í vörnina en ég hef aðra möguleika. Fernandinho getur spilað þar og Sagna getur spilað þar,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×