Innlent

Bæjarstjóri lítur Blöndu girndarauga

Sveinn Arnarsson skrifar
Síðustu fimm ár hefur fækkað um 6 prósent í byggðakjarnanum.
Síðustu fimm ár hefur fækkað um 6 prósent í byggðakjarnanum. Vísir/Pjetur
Raforkuflutningar á Norðvesturlandi hafa hamlað uppbyggingu stóriðju í og við Blönduós á síðustu árum. Gagnaver þurfti frá að hverfa vegna ónógrar orku og fyrirhugað álver á Hafursstöðum mun ekki geta fest kaup á orku í bráð.

Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi, segir byggðar­lagið vera í vörn, fækkað hafi á síðustu áratugum bæði í sveit og í byggðarlaginu og því þurfi að koma til aðgerða til að spyrna við fótum.

„Hefðbundnir atvinnuvegir hafa átt undir högg að sækja hér á svæðinu á síðustu áratugum, það er sjávarútvegur og landbúnaður. Hér eru mun færri sem gera út báta en gerðu fyrir nokkrum áratugum og einnig er fólki að fækka í hefðbundnum landbúnaði,“ segir Arnar.

Að hans mati þarf stóran vinnustað í Húnavatnssýslur til að sporna gegn fólksflutningi af svæðinu.

„Það er gremjulegt að gagnaver sem vildi koma til okkar þurfti frá að hverfa vegna þess að ekki er hægt að fá raforku til okkar. Á sama tíma horfir maður á Blöndu renna fram hjá eldhúsglugganum okkar. Hér er næg orka sem við viljum nýta sem næst okkur,“ segir Arnar Þór.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×