Innlent

Blanda fundin í Skotlandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Gæsin Blanda tignarleg eftir merkingu í sumar.
Gæsin Blanda tignarleg eftir merkingu í sumar. Mynd/Jón Sigurðsson
Gæsin Blanda, sem hafði verið saknað frá 11. nóvember síðastliðnum, er komin til vetrardvalar á Skotlandi með millilendingu í Færeyjum. Jón Sigurðsson, gæsapabbi ef svo mætti að orði komast, er himinlifandi yfir að hún skilaði sér til Skotlands.

„Nokkrir fuglar voru merktir í sumar með GSM-sendum. Blanda fór yfir til Skagafjarðar í nóvember og hætti svo að senda merki frá sér. Við vorum orðnir örlítið vonlitlir og héldum að hún hefði verið skotin í Skagafirðinum,“ segir Jón. „Við vorum því himinlifandi þegar hún sendi okkur merki frá Skotlandi.“

Blanda virðist ekki hafa farið hefðbundnar leiðir yfir hafið. Hún millilenti í Færeyjum og tók flugið fyrir hana þaðan til Skotlands aðeins sex klukkustundir. Meðalhraði hennar var þá um 60 km á klukkustund.

En nú er Blanda komin til vetrardvalar og hleður þar batteríin. „Við munum fylgjast grannt með henni í vetur og hlökkum til að fá hana aftur heim á Blönduós næsta vor,“ segir Jón. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×