Innlent

Graseyjar gera Garðbæingi gramt í geði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kristján Ólafsson segir graseyjar í Frjóakri og reyndar í Akrahverfinu öllu vera skipulagsklúður sem fækki bílastæðum og hindri aðgang að stæðum við húsin.
Kristján Ólafsson segir graseyjar í Frjóakri og reyndar í Akrahverfinu öllu vera skipulagsklúður sem fækki bílastæðum og hindri aðgang að stæðum við húsin. vísir/Anton Brink
„Þetta er skipulagsklúður og bærinn á bara að laga þetta,“ segir Kristján Ólafsson, vélfræðingur og íbúi við Frjóakur í Garðabæ, sem árangurlaust hefur reynt að fá bæinn til að lagfæra graseyjar í Frjóakri.

Að sögn Kristjáns hefta graseyjarnar ekki aðeins aðkomu að stæðum á lóðum húsanna heldur fækki þær líka stæðum sem gætu verið í götunni.

„Í flestum þessum húsum er tveir bílar og jafnvel þrír og stundum koma gestir,“ segir hann. Og þá er ekki allur vandinn upptalinn. „Lögreglan hefur verið að koma á nóttunni í hverfið til þess að sekta þá sem lagt hafa bílum með kannski eitt hjól uppi á gangstétt – þetta er fáránlegt.“

Bæjaryfirvöld benda á að graseyjarnar séu í samræmi við deiliskipulag í Akrahverfi. Kristján segir ekki um það deilt. Vandamálið sé hins vegar skipulagið sjálft. Eyjarnar séu rangt staðsettar um allt Akrahverfi, þær séu fyrir bílastæðum og jafnvel fyrir inngangi húsa.

„Menn geta ekki notað stæðin og íbúarnir hafa sjálfir verið að skera þetta burt en það verður ljótt þegar hver og einn er að gera þetta fyrir sig. Þess vegna vildum við að bærinn gerði þetta svo þetta væri heilsteypt,“ segir Kristján.

Nú síðast sendi Kristján bænum bréf þar sem hann sagði bæjarverkfræðinginn hafa lagt til að íbúar mættu sjálfir leggja grassteina í staðinn fyrir gras í eyjunum og að þeir gætu síðan ekið yfir eyjarnar.

„Litlir bílar komast ekki upp á þetta, þeir bara rekast í og skemmast, þeir eru svo lágir,“ segir Kristján.

Bæjarráð Garðabæjar tók bréf Kristjáns fyrir á þriðjudaginn og ítrekaði þá frá því áður að frágangur götunnar sé í samræmi við deiliskipulag en að það taki jákvætt í einstaka breytingar á vegum íbúa í samráði við tækni- og umhverfissvið bæjarins. Að auki var bæjarstjóranum falið að ræða við Kristján.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Einn íbúinn i Frjóakri hefur sjálfur kostað minnkun á graseyju framan við hús sitt.vísir/anton brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×