„Þetta kviknaði allt saman út frá merkjavörusíðunni. Fólki finnst gaman að skoða úrvalið og kaupa sér fínar merkjavörur sem endast á góðu verði. Ég ákvað að opna búð af því að það eru margir sem nenna ekki að vera að standa í því að selja á netinu. Núna getur fólk mætt, séð vörurnar með eigin augum og mátað.“
Reglurnar í Merkjavöru-hópnum eru afar strangar en Stefán hefur átt það til að eyða færslum hjá þeim sem fylgja ekki reglum síðunnar. Núna hefur hann hins vegar meiri stjórn á því sem er selt í búðinni. Fólki býðst að senda á þau vörur og hann velur það sem fer í sölu ef það á við.
„Núna höfum við meiri stjórn á því hvað er selt. Við verðum mjög ströng. Merkjavaran lifir lengur og við lítum á þetta sem endurnýtingu á fötum. Að koma hlutunum í hendur nýrra eigenda er stór partur af þessu.“
![](https://www.visir.is/i/B96B6BEBFBDA1B352612992326FCD16D835362A5669C15809E2F59818B55CB8B_713x0.jpg)
Stefán segir að þessi verslun verði sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi en hugmyndin þekkist víða um heim. „Þetta er í fyrsta skiptið sem fólk getur farið í verslun og keypt sér notaða hágæðavöru sem stenst tímans tönn. Við erum með föt frá áttunda, níunda og tíunda áratugnum og erum með allt til alls hjá okkur fyrir þá sem vilja selja.“
Eins og fyrr segir verður búðin opnuð í dag en hún er til húsa í Miðstræti 12 við Skálholtsstíg. Þeir sem hafa áhuga á að selja merkjavörur í Stefánsbúð geta haft samband í gegnum Facebook-síðu verslunarinnar.