Lífið

Afmælisdrengurinn Bubbi syngur Kim Larsen í tilefni dagsins

Jakob Bjarnar skrifar
Það sem einkennir Facebook öðru fremur í dag eru lög með Bubba, og afmæliskveðjur en í þeim er afmælisbarnið að drukkna.
Það sem einkennir Facebook öðru fremur í dag eru lög með Bubba, og afmæliskveðjur en í þeim er afmælisbarnið að drukkna.
Afmæliskveðjum bókstaflega rignir yfir Bubba Morthens á Facebooksíðu hans, svo mjög að hann hefur gefist upp á að svara og læka. Þess í stað sendir hann kveðju með því að syngja lag Kim Larsens, Sukke unge mennesker – og deila því á Facebookvegg sinn. Bubbi gerir það að hætti hússins – vel. Lagið er nú á fleygiferð um Facebook en það má jafnframt finna hér.

Einn þeirra sem sendir Bubba kveðju er Jakob Magnússon bassaleikari og samstarfsmaður Bubba til áratuga. Það gerir hann með meðfylgjandi mynd og svohljóðandi skilaboðum:

„Innilega til hamingju með afmælið elsku vinur. Ég hlakka til að spila með þér í kvöld. Hér er ein mynd af okkur félögum frá því að við vorum í Das Kapital. Þá vorum við dáldið ruglaðir en í dag erum við lífsglaðir.“

Jakob lætur þessa mynd af þeim Bubba fylgja sinni kveðju, þegar þeir voru lífsglaðir og ruglaðir, nú eru þeir bara lífsglaðir.
Grímur Atlason tónleikafrömuður er annar sem sendir Bubba kveðju: „Þessi gæi hefur fylgt mér í 35 ár. Ótrúlegur ferill og alveg furðuleg náðargáfa sem honum var gefin. Það er sannkallað rannsóknarefni hvað hann hefur gert mikið af ódauðlegri tónlist og textum. Hann á afmæli í dag. Hann lengi lifi! Til hamingju með daginn Bubbi Morthens!“

Grímur tengir við lagið Afgan og lætur fylgja kveðjunni. Og þannig má lengi telja. Segja má að það sem einkenni Facebook öðru fremur í dag séu myndbönd með tónlist og textum Bubba Morthens.

Bubbi mun halda uppá daginn með tónleikum í Eldborg í Hörpu í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×