Enski boltinn

Owen lét Mourinho ekki slá sig útaf laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen og Zlatan Ibrahimovic.
Michael Owen og Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Michael Owen stendur við gagnrýni sína á sænska framherjann Zlatan Ibrahimovic og var óhræddur að svara Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United.

Michael Owen gagnrýndi Zlatan Ibrahimovic í útsendingu BT Sport fyrir nokkru. „Hann er án vafa bara tímabundin lausn í framherjastöðuna. Hann er góður en við erum að tala um Manchester United. Þú verður að vera einn besti framherji heims til að vera í byrjunarliði Manchester United,“ sagði Michael Owen

Hinn 33 ára gamli Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 8 mörk í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og alls 13 mörk í 23 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.

Jose Mourinho taldi ástæðu til að gera lítið úr afrekum Michael Owen hjá Manchester United eftir að hann heyrði gagnrýni Owen á sinn mann.

„Staðreyndin er sú að  Zlatan Ibrahimovic, þrátt fyrir að Michael Owen sé ekki hrifinn af honum, mun skora fleiri mörk á einu tímabili en Michael Owen gerði á sínum þremur tímabilum með félaginu. Ibrahimovic er næstum því búinn að ná því á þremur mánuðum þannig að hann er ekki slæmur kostur fyrir okkur,“ sagði Jose Mourinho.

Svar Michael Owen var að benda á launaumslag Svíans en Zlatan Ibrahimovic fær 32 milljónir í vikulaun hjá Manchester United.

„Ég lít svo á að mín mörk hafi verið meira virði fyrir Manchester United því ég þénaði aðeins um tíu prósent af því sem Zlatan fær í hverri viku,“ sagði Owen.

Michael Owen spilaði með Manchester United frá 2009 til 2012 og varð enskur meistari 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×