Lífið

Þakklátur Stefán Karl skilur hvorki upp né niður í óvæntri internet-frægð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Leikarinn góðkunni, Stefán Karl Stefánsson, skilur hvorki upp né niður í óvæntri internet-frægð sinni eftir að svokallað meme úr Latabæ þar sem Glanni Glæpur er í fyrirrúmi fór á flug. Hann er þó afar ánægður með framtak þeirra sem standa að baki meme-unum og þakklátur fyrir þann stuðning sem þau hafa fært honum í veikindunum.

„Ég er einhver mesti netbjáni sem hægt er að spyrja. Mér er tjáð að þetta sé svokallað meme og ég horfði bara á dóttur mína og sagði: „Já, auðvitað er þetta meme. Það vita allir hvað það er.“ Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta er,“ sagði Stefán Karl í Bítinu á Bylgjunni í morgun aðspurður um hvað væri í gangi.

Líkt og Vísir greindi frá í gær er forsaga málsins sú að milljónir hafa horft á svokallað meme af myndbandi úr Latabæ. Meme er hugmynd, frasi eða einhvers konar mynd, texti, myndband sem dreifist um internetið og líkt er eftir og sett í alls kyns útgáfur hér og þar.

„Það að komast inn á þennan meme-markað er eitthvað sem allir þrá en enginn getur planað,“ sagði Stefán Karl.

Donald Trump í gervi Stefáns Karls.Vísir
Óendanlega vinsælt og Stefán Karl nýtur góðs af því

Milljónir horft á mismunandi útgáfur af laginu We Are Number One úr Latabæ sem framtakssamir notendur YouTube hafa útbúið. Segja má að Stefán Karl og fjölskylda muni njóta góðs af þessari óvæntu frægð en með hverju myndbandi fylgir hlekkur á söfnunarsíðu til styrktar Stefáni Karli og fjölskyldu hans en Stefán Karl greindist með krabbamein fyrr í haust.

Óhætt er að segja að blússandi gangur sé í söfnuninni en fyrir um þremur vikum var búið að safna fimm milljónum og líkt og sjá má á söfnunarsíðunni sjálfri er ljóst að margir þeirra sem lagt hafa í púkkið fundu söfnunarsíðuna í gegnum myndböndin sem um ræðir.

„Mér finnst þetta frábært hvað þessir krakkar eru að nota internetið til þess að gefa af sér. Mér finnst það með ólíkindum að ungir krakkar út um allan heim vita af þessu afli sínu,“ sagði Stefán Karl.

Stefán Karl er þakklátur fyrir framtakið en um ellefu milljónir hafa safnast til þessa. Ljóst er að hann glímir við erfið veikindi og því má gera ráð fyrir að sjóður sem þessi komi sér vel í baráttunni.

„Ég er ekki farinn að sjá neitt af þessum pening en ég veit að hann er þarna. Verður maður ekki bara að fara í hlutafjárútboð,“ sagði Stefán í gamansömum tón. „Fyrst og fremst er litið á þetta sem sjóð barna minna fyrir þeirra framtíð. Ég veit ekki hvað mín framtíð ber í skauti sér en þannig lít ég á þetta.“

Stefán Karl sem Glanni glæpur.
Átján þúsund bréf og tilkynningar til stuðnings Stefáni Karli á einu kvöldi

Í þakklætisskyni ákvað Stefán Karl í samráði við höfund lagsins We Are Number One og framleiðendur Latabæ að gefa allar hljóðskrár lagsins út á netið svo að hver sem er geti útbúið meme. Þá flutti Stefán Karl, ásamt félögum sínum, lagið í beinni útsendingu á Facebook á sunnudaginn. Viðbrögðin voru gífurleg.

„Ég ætla ekki að lýsa tilfinningunni sem það er að fá þúsundir bréfa. Á sunnudagskvöldið fengum við átján þúsund tilkynningar og bréf. Ég kemst ekki yfir að lesa þetta allt en ég var bara með tár í augunum að lesa bréf frá fólki að tala um að ég hafi verið hluti af þeirra barnæsku og þess vegna vilji þau gefa af sér. Fólk sem segist hafa snúið við þunglyndi sínu með því að taka við Glanna og að ég hafi náð að aðstoða þau í gegnum námserfiðleika og ég veit ekki hvað og hvað,“ sagði Stefán Karl.

Einum fjórða af lyfjameðferð Stefáns er nú lokið en þráðurinn verður aftur tekinn upp í næsti viku. Í millitíðinni ætlar Stefán Karl að éta á sig gat með jólasmákökum. Vonast Stefán Karl til þess að meðferðin skili tilætluðum árangri.

„Þetta verður svona eitthvað fram eftir næsta ári. Lyf og geislar til skiptis, svo vonandi verður maður laus og kemst aftur á lappir svo maður geti farið að láta til sín taka svo eftir verði tekið.“

Hlusta má á viðtalið við Stefán Karl í heild sinni hér að ofan en hér að neðan má sjá upprunalega lagið sem allt snýst um og nokkur dæmi um meme sem útbúin hafa verið út frá því.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.