Lífið

Safna hljóðfærum fyrir rokkbúðir í Tógó

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Ingibjörg Elsa Turchi frá Stelpur rokka! er ein af þeim sem stendur fyrir söfnunni.
Ingibjörg Elsa Turchi frá Stelpur rokka! er ein af þeim sem stendur fyrir söfnunni. Vísir/Ernir.
Í tilefni 5 ára afmælishátíðar Stelpur rokka! erum við í samstarfi við samtökin Sól í Tógó að safna hljóðfærum fyrir rokkbúðir sem verða haldnar í Tógó í ágúst. Þessar rokkbúðir eru á vegum tógóískra tónlistakvenna og þær verða með svipuðu sniði og þær búðir sem hafa verið haldnar hér á landi,“ segir Ingibjörg Elsa Turchi, sjálfboðaliði hjá Stelpur rokka!, um þetta söfnunarverkefni sem samtökin eru að ráðst í.

„í Tógó er lítið framboð af rafmagnshljóðfærum. Við óskum sérstaklega eftir trommusettum, rafmagnsgíturum og bössum, rafmagnshljómborðum, gítar- og bassamögnurum og míkrófónum. Þau þurfa að auðvitað að vera nothæf. Við erum einnig í samstarfi við Tónastöðina með móttöku á hljóðfærunum, þangað getur fólk komið með hljóðfærin.“

Samtökin Stelpur rokka! eru femínískt sjálfboðaliðastarf sem leitast við að efla ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun. Samtökin halda sumarbúðir þar sem ungum stelpum er kennt á hljóðfæri, þær mynda hljómsveitir, frægar tónlistarkonur mæta og fræða stelpurnar um tónlistarbransann og jafnréttismál eru rædd. Samtökin vilja kollvarpa staðalímyndum á konum sem koma fram í popptónlist og annars staðar þar sem konur birtast ekki sem skapandi gerendur heldur sem kynferðisleg viðföng. Einnig hefur hlutfall kvenna verið heldur lágt á tónlistarhátíðum hér á landi og sem skráðra höfunda í STEFi, svo fátt eitt sé nefnt. Þennan halla vilja Stelpur rokka! rétta við og sömuleiðis stuðla að betra tónlistarlífi með því að virkja ungar stelpur í listsköpun. Samtökin héldu í fyrsta sinn rokksumarbúðir árið 2012 og hafa gert á hverju ári síðan þá. Búðirnar hafa verið haldnar á Akureyri, Reykjavík og Reykjanesbæ og samtökin hafa farið á ráðstefnur víða í Evrópu og Ameríku og átt í samstarfi við önnur svipuð samtök utan úr heimi, til dæmis Girls Rock Camp Alliance og hjálpað við stofnun rokkbúða í Póllandi.

Sól í Tógó eru samtök Íslendinga sem hafa verið að leggja mannúðarstarfi systur Victorine, eða Victó, í Aného og Gliji í Tógó lið, þá aðallega með stuðningi við uppbyggingu á munaðarleysingjaheimili sem Victorine heldur úti þar í landi. Árið 2007 voru hjónin Alda Lóa Leifsdóttir og Gunnar Smári Egilsson að ættleiða dóttur sína í Tógó þar sem þau kynntust þessu mannúðarstarfi og lögðu því lítillega lið. Þegar þau svo sneru aftur til Íslands fóru þau að kynna starf Victó fyrir fólki og úr urðu samtökin Sól í Tógó. Allar götur síðan hafa þau stutt við uppbyggingu samfélagsins í Gliji og staðið þar fyrir byggingu á húsum fleiru og stefna á enn frekari umbætur í heilsugæslu, byggingu á skóla og leikskóla og bæta alls konar félagsstarf á svæðinu.

Söfnunin fer fram dagana 15. apríl til 7. maí í Tónastöðinni Skipholti 50D. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.