Lífið

Fórnarlamb Kit Kat-harmleiks getur tekið gleði sína á ný

Birgir Olgeirsson skrifar
Bandarískur háskólanemi getur tekið gleði sína á ný eftir að Kit Kat-súkkulaði var stolið úr bílnum hans því nú á hann 6.500 stykki.

Háskólaneminn heitir Hunter Jobbins en hann deildi raunum sínum á samfélagsmiðlum eftir að einhver hafði farið inn í bíl hans og tekið þaðan ófrjálsri hendi Kit Kat sem Hunter hafði hlakkaði til að borða.

Þjófurinn virtist þó hafa í sér snefil af eftirsjá því hann skildi eftir miða þar sem hann útskýrði fyrir Hunter að hann hefði séð Kit Kat-ið í bílnum og langað umsvifalaust alveg svakalega í það. Hann fann út að ein af bílhurðunum var ólæst, fór inn í bílinn og tók Kit Kat-ið.

Hann lofaði Hunter hins vegar því að hafa ekki tekið neitt annað, hann var bara svo óheyrilega svangur að hann varð að taka sælgætið.

Mynd Hunters af miðanum frá þjófnum fór víða um internetið og rataði að lokum til framleiðanda Kit Kat, Hershey, sem ákvað að senda honum 6.500 stykki og koma þeim öllum fyrir í bíl hans.

Vitandi hve mikla ánægju eitt Kit Kat getur fært manneskju ákvað Hunter að deila farminum með samnemendum sínum í Kansas-háskólanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×