„Á ég að tala íslensku, frönsku eða kínversku?“ spyr Ketill Larsen stríðnislega þegar hann er beðinn um viðtal vegna sýningar sem hann er að opna í dag klukkan 17 í Ráðhúsinu í Reykjavík. Ég vel fyrsta kost – eftir talsverða umhugsun!
Ketill er með fulla tösku af málverkum og teikningum sem hann er að fara að stilla upp í Tjarnarsalnum. Svo hafa börn hans og barnabörn líka tekið til hendinni og tengdasynirnir leggja sitt af mörkum.
„Ég á átta barnabörn, þau gera hlutina á sinn hátt, teikna, mála og sulla og annar tengdasonur minn, sem er ítalskur, gerir andlitsgrímur, mjög vel telgdar í úrvalstré. Hann hefur sýnt í fleiri löndum,“ lýsir Ketill sem kveðst sjálfur hafa teiknað mikið að undanförnu.
„En ég er ekkert hættur að mála,“ tekur hann fram. „Ég hef málað frá 1970 – milli sjö og tíu þúsund málverk og það sem er á sýningunni er samtíningur frá öllu þessu tímabili.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars.
Ekkert hættur að mála
Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
