Lífið

Samtök postulanna tólf

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurlína styður við starfsemina í Krýsuvík með vikulegri heimsókn, ræðir við ráðgjafana og útbýr efni í hendur þeirra.
Sigurlína styður við starfsemina í Krýsuvík með vikulegri heimsókn, ræðir við ráðgjafana og útbýr efni í hendur þeirra. Vísir/Ernir
„Það voru tólf manns, „postularnir tólf“ sem stofnuðu Krýsuvíkursamtökin fyrir 30 árum, hópur af áhugafólki sem hafði allt reynslu af alkóhólisma, sumir sem alkar, aðrir sem aðstandendur,“ segir Sigurlína Davíðsdóttir, prófessor emerita. Hún er ein stofnendanna, var lengi í forystu samtakanna og starfar nú sem handleiðari starfsfólks á meðferðarheimilinu í Krýsuvík.

Húsið í Krýsuvík sem meðferðarheimilið er í er stórt og var í niðurníðslu þegar samtökin tóku við því af ríkinu fyrir 30 árum. Óx félagsmönnum það ekkert í augum?

„Jú, jú. Húsið var búið að standa autt í tvo áratugi, þar var búið að brjóta allar rúður og stela öllu steini léttara. Það var bákn úti í eyðimörk. Við ákváðum að loka því svo það héldi ekki áfram að skemmast og taka það svo í notkun smátt og smátt.“

Í Krýsuvík innritar fólk sig til sex mánaða dvalar. Þessi langi meðferðartími er meðal þeirra þátta sem Sigurlína segir skila góðum árangri, enda sér unnin stíf sporavinna allan tímann. „Við notum AA sporin. Ég er alltaf jafn hissa hversu fáar meðferðarstofnanir nýta það kerfi, það er svo flott meðferðartæki,“ segir hún. „Með sporunum er hægt að fara algerlega ofan í saumana á því sem er að, þegar fólki er gefinn tími til þess.“

 

Sumir koma beint úr afvötnun til Krýsuvíkur, annað hvort af Landspítala eða SÁÁ, að sögn Sigurlínu. „Það er orðið minna um áfengisvanda en áður en meira um notkun á allskonar vanabindandi efnum,“ upplýsir hún og segir 21 geta verið í meðferð í einu, þeim sé skipt í þrjá hópa. „Við erum með þrjá ráðgjafa og hver þeirra er með sjö manna hóp. Svo eru tveir kokkar, staðarhaldari og forstöðumaður í Krýsuvík. Tveir starfsmenn eru á skrifstofu og læknir frá Landspítalanum kemur einu sinni í viku.“

Sjálf styður Sigurlína við starfsemina með vikulegri heimsókn, hún ræðir við ráðgjafana og útbýr efni í hendur þeirra.

Auk kaffiboðsins sem samtökin efna til í dag hefur það gefið út fallegt afmælisrit, Krýsa heitir það og er fullt af fróðlegu efni. Meðal annars eru viðtöl við útskrifaða vistmenn og það sem þeim er efst í huga eftir dvölina er kærleikurinn sem ríkti innan stofnunarinnar.



„Ritið er ekki síst gefið út fyrir hollvini okkar. Það er fólk sem styrkir okkur einu sinni í mánuði og oft hafar framlög þess komið sér meira en vel,“ segir Sigurlína. En aðal fjármagnið kemur frá ríkinu. Svíar leituðu mikið til samtakanna um tíma og margir þeirra eiga meðferð hjá okkur því að þakka að líf þeirra komst á réttan kjöl. Einn þeirra kemur alltaf hingað einu sinni á ári í pílagrímsferð.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. október 2016.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×