Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari Gróttu í Olís-deild kvenna í handbolta. Hún tekur við starfinu af Karli Erlingssyni sem var látinn fara fyrr í mánuðinum.
Anna Úrsúla hjálpaði Gróttu að vinna Íslandsmeistaratitilinn 2015 og 2016 en dró sig í hlé eftir síðasta tímabil.
Hún sneri aftur á völlinn um helgina þegar Grótta tapaði 25-29 fyrir Val. Anna Úrsúla mun leika með Gróttu næstu tvö árin auk þess að gegna starfi aðstoðarþjálfara.
„Anna býr yfir gríðarlegri þekkingu á handbolta [og] hefur góða yfirsýn yfir leikinn. Ég er mjög ánægður með að hún haldi áfram með okkur, bæði sem aðstoðarþjálfari og leikmaður liðsins,“ er haft eftir Kára Garðarssyni, þjálfara Gróttu, á Facebook-síðu handknattleiksdeildar félagsins.
Gróttu hefur gengið illa það sem af er tímabili og situr í áttunda og neðsta sæti Olís-deildarinnar með aðeins tvö stig eftir sjö umferðir.
Næsti leikur Gróttu er gegn ÍBV á heimavelli á laugardaginn kemur.
