Lífið

Ætlar að verða 115 ára

Sólveig Gísladóttir skrifar
Hafsteinn Þór Guðjónsson, öðru nafni Haffi Haff.
Hafsteinn Þór Guðjónsson, öðru nafni Haffi Haff. Mynd/Stefán
Hafsteinn Þór Guðjónsson, eða Haffi Haff eins og margir þekkja hann, hefur ýmislegt á prjónunum þó mun minna beri á honum í dag en þegar hann kætti Íslendinga með fjörlegri framkomu og hressilegu útliti í undankeppni Eurovision 2008.

Hann mætir sveittur og móður með heyrnartól í eyrunum og í rauðum ermalausum bol merktum Reykjavíkurmaraþoninu. „Ég ákvað að leggja ekki af stað fyrr en tíu mínútum áður en við áttum að hittast, svo ég þyrfti að hlaupa hraðar,“ segir hann brosandi í gegnum úfið skeggið og smellir á mig kossi.

Það er ekki annað hægt en að hrífast með þessum káta karakter sem rigsar út í góða veðrið, tekur ekki annað í mál en að sitja úti í sólinni á meðan hennar nýtur við.

Haffi Haff er hliðarsjálf Hafsteins sem hann dregur fram á böllum. Mynd/Stefán
Síðskeggjaður víkingur

Skeggið og síða hárið er líklega það fyrsta sem fólk staldrar við þegar það sér Hafstein í dag, enda útlitið gjörólíkt því sem það var fyrir nokkrum árum. Hann hefur skýringu;

„Ég var bókaður á þorrablót í Seattle árið 2015 og í janúar hugsaði ég með mér: „Bíddu, ég get ekki farið skegglaus út.“ Þá byrjaði ég að safna, borðaði ólífur og smjör og gerði fótaæfingar til að auka testósterónmagnið. Þetta tókst og ég var orðinn flottur fyrir þorrablótið,“ lýsir Hafsteinn og skellir upp úr.

„Svo hélt ég bara áfram að safna. Um sumarið var ég að vinna á krabbaskipinu hans pabba í Alaska eins og svo oft áður og eftir vertíðina fór ég út í skóginn til að vera einn með sjálfum mér. Þá var enginn í kringum mig og engin ástæða til að klippa sig. Nú elska ég þetta. Mér finnst svo gaman að koma við hárið og skeggið, og svo líður mér líka svo karlmannlega,“ segir hann glettinn.

Alltaf á hreyfingu

Ég spyr Hafstein út í maraþonbolinn. „Ég ákvað daginn fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa tíu kílómetra og það var æðisleg upplifun. Það var magnað að týnast í mannfjöldanum og sjá áhorfendur með potta og pönnur á hliðarlínunni,“ segir Hafsteinn sem fór vegalengdina á 51 mínútu.

„Og ég stoppaði samt til að taka myndir af öllu saman,“ segir hann og bætir hlæjandi við að hann finni ennþá fyrir harðsperrunum.

Hafsteinn æfir töluvert, en aðallega heima hjá sér. Mynd/Stefán
Hafsteinn er mun hraustari en hann lítur út fyrir við fyrstu sýn. Margir muna eftir honum þegar hann tók þátt í Wipeout Iceland fyrir nokkrum árum. Flestum kom verulega á óvart þegar hann vann keppnina með yfirburðum. Það sést þó greinilega þegar vel er skoðað að hann er í þrusuformi enda segist hann hugsa mjög vel um heilsuna.

„Ég er að plana að verða 115 ára,“ segir hann í fullri alvöru. „Þess vegna hleyp ég, æfi mig og borða hollt,“ segir ­Hafsteinn sem æfir að eigin sögn mest heima hjá sér.

„Mér finnst gaman að hlaupa út í Bónus og svo set ég mér ýmis takmörk og verkefni. Svo stend ég alltaf heima hjá mér nema þegar ég leggst í rúmið til að sofa enda vil ég stöðugt vera að nota líkamann,“ segir hann og viðurkennir að hann eigi ekki sófa, enda þurfi hann ekki á honum að halda.

Í fjarsambandi

Hafsteinn er ástfanginn. Sá heppni heitir Julian og er landslagsarkitekt sem býr í Calgary í Kanada. 

„Við erum búnir að vera saman í þrjú og hálft ár. Við kynntumst á Kiki árið 2013 meðan hann var hérna í sex mánaða skiptinámi. Hann er æðislegur, mjög rólegur og góður. Við erum mjög svipaðir í hugsun en hann er hin hliðin á teningnum,“ segir hann glaður.

En hvernig er að búa hvor í sínu landinu? 

„Það er stundum erfitt, en ég veit samt að þetta er bara partur af okkar sögu. Framtíðin er alveg óráðin en við lifum á tímum þar sem við getum ferðast auðveldlega og þess vegna nýtum við okkur það til að kynnast betur.“

Með kærastanum Julian frá Kanada.
Fjölbreytt verkefni

Hafsteinn er þekktastur sem tónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Haffi Haff. Haffi hefur verið minna í sviðsljósinu undanfarin ár en mikið bar á honum í fjölmiðlum nokkur ár eftir að hann tók þátt í undankeppni Eurovision með Wiggle Wiggle Song.

„Mér líður reyndar eins og ég sé mun þekktari í dag en ég var á þessum tíma því ég þekki sjálfur mun fleiri en ég gerði þá. Ég, Hafsteinn Þór, er orðinn mun þekktari þó Haffi Haff sé ekki eins mikið í sviðsljósinu. Haffi er alveg ennþá til, sérstaklega á sviðinu, en ég er farinn að leiðrétta fólk aðeins og biðja það um að kalla mig Hafstein Þór, svona dagsdaglega,“ segir hann brosandi og hrærir í kaffibollanum.

Hafsteinn vinnur enn við tónlist en hann segir það þó aðeins eitt af því fjölmarga sem hann taki sér fyrir hendur.

„Ég er til dæmis að gera vídeólist, taka myndir, byggja, smíða, kenna förðun og ekki síst að tala við fólk,“ segir Hafsteinn sem fær mikið út úr því að gefa af sér.

Hagsýnin kemur upp í blaðamanni sem spyr; Hvernig lifir þú af listinni?

„Ef þú ert skynsamur og lifir spart, velur vel þau verkefni sem þú tekur að þér, þá gengur þetta upp. Ég lifi stanslaust á núllinu og hef það sem mottó að hafa efni á því sem ég kaupi. Ég hef ekki mikið, en samt á ég svo margt.“

Á Haffaballi er alltaf fjör.
Skemmtir í Seattle

Hafsteinn er fæddur í Bandaríkjunum og lítur á það sem sitt annað heimaland. Hann dvelur þar drjúgan hluta ársins og var til að mynda í Seattle í tvo mánuði í vor.

„Ég þekki marga í Seattle, bæði ættingja og vini. Þar er mikið í boði fyrir mig, bæði vinna og innblástur,“ segir hann.

Í vor starfaði hann við að skemmta gestum hinsegin­ skemmti­staðarins Changes. „Chang­es er einn elsti hinsegin­ skemmtistaðurinn í Seattle en sami eigandi hefur átt staðinn í þrjátíu ár. Þarna er mjög breiður hópur sem gaman er að skemmta fyrir, allt frá ungu fólki sem er að koma á sinn fyrsta gaybar og til gömlu drottninganna.“

Spilaði í brúðkaupi

Ég bið Hafstein um að rifja upp sumarið. „Ég er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og þess vegna var mjög skemmtilegt þegar ég var beðinn um að skemmta í brúðkaupi í sumar. Þetta var ungt og flott par sem gifti sig á Hellu. Þau voru svo glöð og mér fannst svo gaman að fá tækifæri til að deila með þeim gleðinni.“





Með mömmu eftir vel heppnað Reykjavíkurmaraþon.
Julian heimsótti Hafstein í sumar og þeir fóru saman austur á land.

„Ég var með gigg á Kaffi Egilsstöðum. Það var reyndar rosa erfið helgi og það mættu fáir, en mér finnst það bara gaman. Ég hef oft spilað fyrir fáa, jafnvel enga gesti og þá nýti ég tímann til að æfa mig og prófa eitthvað nýtt því enginn er að dæma,“ segir hann og hlær.

Hafsteinn tók einnig þátt í Hins­egin dögum sem sjálfboðaliði. „Við vorum með fjölskyldudag á við Kjarvalsstaði og nutum dagsins í veðurblíðunni. Þá skemmti ég líka á ungmennaballi fyrir hinsegin krakka. Það fannst mér æðislegt, að geta tekið vel á móti krökkum sem eru að stíga sín fyrstu skref.“

Fær góðan stuðning


Hvað er það mikilvægasta í þínu lífi?

„Foreldrar mínir. Þau eru númer eitt,“ svarar Hafsteinn eftir smá umhugsun. Þau gáfu mér allt og kenndu mér allt, bæði gott og illt. Ég sé sjálfan mig í foreldrum mínum sem gerir mig bæði glaðan og pirraðan,“ segir hann.

Faðir Hafsteins, Guðjón Guðjónsson, býr í Arizona í Bandaríkjunum en móðir hans, Fanney Amelía Gunnlaugsdóttir, hér á Íslandi.

„Við hlæjum oft að því að upphafsstafirnir hennar eru FAG (hommi). Henni finnst það gaman enda er hún algert FAG fan og hefur stutt mig mjög mikið í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.