Sena hefur sett í sölu miða í öll svæði á tónleika Justin Bieber í Kórnum í kvöld. Uppselt varð á tónleikana á mettíma í desember þegar miðar fóru í sölu en nú hafa miðar í öll svæði verið settir í sölu.
Í tilkynningu frá Senu kemur fram að Justin Bieber hafi verið með frátekna miða í öll svæði en nú liggi fyrir að hann muni ekki nota þá alla.
„Nú hafa því skyndilega farið í sölu miðar í öll svæði á tónleikana í kvöld: stæði, stúku A og stúku B.“ Miðasala fer fram á Tix.
Um er að ræða síðari tónleika Bieber hér á landi en þeir fyrri fóru fram í Kórnum í gærkvöldi eins og fjallað er um hér að neðan.
