Lífið

Aukin pressa sem fylgir Skaupinu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Steindi Jr. grínisti ásamt Agli Ólafssyni leikara og söngvara en þeir félagar sungu lokalag skaupsins saman.
Steindi Jr. grínisti ásamt Agli Ólafssyni leikara og söngvara en þeir félagar sungu lokalag skaupsins saman.
Allir hafa skoðun á Áramótaskaupinu og eru skoðanirnar nánast jafn misjafnar og þær eru margar. Fréttablaðið tók nokkra aðstandendur þess tali og kannaði hvernig þeim þykja viðbrögðin hafa verið.

Var á Twitter allan tímann

„Skaupið er sérstakt fyrirbæri, ég held að það tíðkist ekki annars staðar að það sé sýndur grínþáttur einu sinni á ári sem 90 prósent þjóðarinnar horfir á og það hafa allir mjög sterkar skoðanir á honum. Þetta er mjög erfitt verkefni og það er rosalega erfitt að höfða til allra. Þetta grín sem á að henta öllum er ákveðin formúla af gríni sem er mikill óvinur grínista. Það er ekki hægt að búa til fullkomið skaup en einhvern tímann var talað um að takist þér að hlæja kannski þrisvar sinnum upphátt yfir skaupinu þá hafi það gengið vel, ég er nú ekki alveg sammála því og vona að fólk hafi almennt hlegið örlítið meira en það. Þetta er rosalega vanþakklátt og fólk er að vinna miklu meira en það er kannski að fá borgað fyrir,“ segir Steindi Jr. grínisti en hann bæði lék og var einn handritshöfunda.

Steindi sökkti sér ofan í samfélagsmiðla eftir skaupið. „Að sjálfsögðu á maður að slökkva á samfélagsmiðlunum á gamlárskvöld en ég var á Twitter allt skaupið. Klukkan tólf var kærastan mín sífellt að segja mér að koma fram og vera með fólkinu en ég var í svona klukkutíma eftir skaup lokaður inni í herbergi að skoða viðbrögð á samfélagsmiðlunum. Mér fannst flestir jákvæðir en auðvitað er þetta ekki fyrir alla. Ég held samt að þetta hafi verið vel heppnað skaup en held þó að elsta fólkið hafa átt erfiðast með að skilja þetta.

Persónulega finnur maður minnst fyrir neikvæðninni því það fólk sem talar beint við mann er yfirleitt frekar jákvætt. Annars byrja ég öll samtöl þessa dagana á; Hefur þú heyrt eitthvað neikvætt? og sendi kærustuna mína í vettvangsferð til að hlera og kanna viðbrögð. En ég geng mjög sáttur frá borði, það auðveldar manni þegar maður hittir fýlupúka úti í bæ að maður sé sjálfur sáttur. Mér finnst Kristófer Dignus leikstjóri eiga mikið hrós skilið, hann hélt vel utan um þetta og gerði þetta vel,“ útskýrir Steindi.

Hann segist finna fyrir aukinni pressu sem fylgi skaupinu. „Ef ég fer og geri eitthvað sjálfur, þá er það mitt stöff og þá er það bara þeir sem kjósa að horfa á það sem horfa. Skaupið er eitthvað sem allir eru að horfa á. Þú þarft að finna fersk teik á öllum málum, þarft að reyna koma fólki á óvart en á sama tíma að finna línu sem hentar sem flestum. Ég var bara hálfpartinn á bak við sófa að horfa á þetta,“ segir Steindi og hlær.

Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikkona.vísir/gva
Það má alltaf læra af gagnrýni

„Mér finnst þetta reyndar ekki vera vanþakklátt starf. Þetta er gaman og krefjandi en maður veit að maður getur ekki gert öllum til hæfis,“ segir leikkonan Katla Margrét Þorgeirsdóttir.

Hún segir vissulega ákveðna pressu fylgja því að taka þátt í skaupinu. „Þetta er flókið form og það er á mörgu að taka. Það eru fullt af fínum línum í svona ferli og auðvelt að vera viðkvæmur. Þegar upp er staðið þá finnst mér þetta þess virði.“

Hún segir þó að fólk hafi ekki persónulega samband við sig til að tjá sig um skaupið. „Nei, alls ekki. En fólk viðrar alveg skoðanir sínar og mér finnst gaman að ræða skaupið. Það má alltaf læra af gagnrýni og hún getur verið lærdómsrík.“

Hún sökkti sér þó ekki niður í samfélagsmiðla á meðan á sýningu stóð. „Ég tími ekki að eyða svona góðu kvöldi í að vera að skoða samfélagsmiðla, ég vil frekar vera með fjölskyldunni. Ég nenni ekki að eyða kröftum í þetta. Ég er alveg til í að heyra skoðanir og en ekki skítkastið.“
Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.vísir/stefán
Gúglaði sig eftir fyrsta skaupið

„Jú, þetta er vanþakklátt starf en maður gleymir því alltaf á næsta ári. Þetta er samt svo gaman, maður finnur það þegar maður er ekki með, að þá langar manni alltaf að vera með, þetta er þannig djobb. Ég held að það hafi núna verið rosaleg kynslóðaskipti. Eldri kynslóðin vill öðruvísi grín heldur en yngra fólkið. Þeir eldri vilja meiri pólitík en yngri kynslóðin vill minni pólitík,“ segir leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir um reynslu sína af Áramótaskaupum.

„Það er auðvitað aukin pressa á því að vera í skaupinu en maður þarf að hafa gaman af þessu, hvort sem maður er í framleiðslunni, skrifum eða að leika. Það er 90 prósent áhorf á þetta og allir hafa skoðanir en maður verður bara að segja fokk it.“

Hún segir að neikvæðu gagnrýnisraddirnar fari að mestu fram hjá sér. „Ég slekk bara oftast á samfélagsmiðlunum. Það fer rosa mikið fram hjá mér, ég veit ekki hvort ég eigi bara svona jákvæða vini en neikvæðnin fer eiginlega alveg fram hjá mér. Ég gerði þau mistök einu að gúgla mig eftir fyrsta skaupið mitt og auðvitað fann ég eitthvað neikvætt, það eru alltaf einhverjir sem fíla mann ekki og Það er bara partur af þessu, best er að sleppa því að gúgla sig.“
Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói, leikari.vísir/stefán
Svolítið taugatrekkjandi

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt en á sama tíma svolítið taugatrekkjandi af því maður veit að það er ekki hægt að gera öllum til hæfis en maður reynir samt að ná til sem flestra,“ segir Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói.

Gói fór, líkt og flestir sjálfsagt vita, með nokkur stór hlutverk í áramótaskaupinu auk þess sem hann skrifaði handritið. Hann segist hafa fundið örla stressi þegar hann tók verkefnið að sér en sé ánægður með að hafa sagt já en þetta er í fyrsta skipti sem hann kemur að handritaskrifum Skaupsins þó hann hafi áður farið með hlutverk í því.

Hann segist einna helst hafa fundið fyrir jákvæðum viðbrögðum og hafi fengið talsverðan fjölda pósta og símhringinga. „Allir sem horfa eru sérfræðingar í því hvernig á að gera þetta og ég hef verið það sjálfur,“ segir hann glaður í bragði.

Hann segist þó ekki hafa legið á Facebook eða kommentakerfum að drekka í sig viðbrögð landsmanna við skaupinu á meðan á sýningu stóð. „Ég passaði mig alveg á því, en það var mjög erfitt. Þegar maður var að fá sms strax eftir skaup var fólk frekar jákvætt og þá ákvað ég að kíkja og svo lá ég alveg í þessu á nýársnótt,“ segir hann hlæjandi og bætir við að lokum að skaupið sé dálítið öðruvísi verkefni en mörg önnur og talsverð áskorun sem hann myndi glaður taka að sér aftur.

Tengdar fréttir

Landsmenn tísta um Áramótaskaupið

Áramótaskaupið fékk misgóðar móttökur eins og jafnan en áhorfendur voru duglegir að setja inn færslur á Twitter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×