Innlent

Þyngd vagnlestar vörubílsins vel yfir leyfðri heildarþyngd ökutækja á brúnni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slysið varð í ágúst í fyrra.
Slysið varð í ágúst í fyrra. mynd/lögreglan á blönduósi
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komist að þeirri niðurstöðu að vörubíll sem keyrði yfir brúna yfir Vatnsdalsá við Grímstungu í ágúst í fyrra, með þeim afleiðingum að brúin hrundi, hafi verið of þungur fyrir brúna. Þá hafi þyngd vagnlestar vörubílsins verið vel yfir leyfðri heildarþyngd ökutækja á brúnni.

Í skýrslu nefndarinnar er lýsing á slysinu en það varð að morgni 18. ágúst 2015. Eystri brúarhaf brúarinnar yfir Vatnsdalsá hrundi þegar vörubifreið með festivang var ekið inn á hana en verið var að flytja jökulruðning frá námu austan árinnar rúma fjóra kílómetra að vinnusvæði vegaframkvæmda vestan megin í dalnum. Brúin gaf sig þegar vörubílnum var ekið inn á hana og féll niður af stöplunum vestan megin.

„Brúin hrundi harkalega niður undan bifreiðinni og heppilegt að bifreiðin valt ekki. Samkvæmt ökumanni var þetta 28. ferðin með hlass yfir brúna á tveimur dögum. Ökumaðurinn, 42 ára karlmaður, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist hann til og hlaut nokkra áverka í slysinu. Var hann meðeigandi fyrirtækisins sem á vörubifreiðina og verktaki hjá aðalverktaka vegaframkvæmdanna,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Engar sérstakar þungatakmarkanir voru á Vatnsdalsvegi né á brúnni þegar slysið varð og var því leyfilegt að aka yfir brúna með 40 tonna heildarþunga. Það er hins vegar mat nefndarinnar að heildarþungi vörubílsins sem brúin hrundi undan hafi verið að lágmarki 57 tonn. Er það ein orsök slyssins en einnig er það mat nefndarinnar að ekki hefði átt að leyfa „40 tonna álagslest á brúnni svo hún hefði sambærilegt öryggi og aðrar brýr.“ Þá skerti skemmt á þrýstistöng burðargetu brúarinnar.

Skýrslu rannsóknarnefndarinnar má sjá í heild sinni hér.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×