Innlent

Segir marga misnota frítt fæði og húsnæði á vegum Útlendingastofnunar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Meira en helmingur hælisumsókna í október og nóvember kemur frá makedónskum ríkisborgurum eða tæplega 300 umsóknir. Saso Andonov, ræðismaður Makedóníu á Íslandi, segir marga vita að þeir fái ekki hæli hér á landi en þeir komi samt, vitandi að þeir fái frítt fæði og húsnæði í einhvern tíma. Yfirvöld á Íslandi vinna nú að því að upplýsa yfirvöld í Makedóníu um gang mála.

Heildarfjöldi hælisumsókna á Íslandi í ár er alveg að verða eitt þúsund. Athygli vekur hve mikill fjöldi umsækjenda kemur frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum en rúmlega helmingur þeirra sem sótt hafa um hæli á síðustu tveimur mánuðum er frá Makedóníu. Synjunarhlutfall þessara einstaklinga er yfir 99 % en Útlendingastofnun ber þó að sjá þeim fyrir fæði og húsnæði á meðan mál þeirra er til meðferðar.

En afhverju sækja Makedónar um hæli í svo miklum mæli?

Margir þeirra koma úr albanska þjóðernisminnihlutanum og einn hluti hópsins veit að hann fær ekki það sem hann biður um en hann lítur til þess að ferlið á Íslandi tekur mun lengri tíma en í öðrum löndum. Í þeim tilfellum eru men bara að nýta sér kerfið og dvelja hér til að fá peninga og ókeypis húsnæði,“ segir Saso.

Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að fækka þessum tilhæfulausum umsóknum. Hér má nefna nýtt verklag Útlendingastofnunar frá því í síðustu viku um endurkomubann í kjörfar synjunar um alþjóðlega vernd.

Saso segir það strax farið að hafa áhrif, margir hafi hætt við að koma eða dregið umsókn sína um hæli til baka.

Samkvæmt upplýsingum frá Innanríkisráðuneytinu vinnur ráðuneytið nú í samvinnu við utanríkisráðuneytið að því að upplýsa stjórnvöld í Makedóníu um gang mála.

„Þau hafa fengið viðeigandi upplýsingar og gripið hefur verið til viðeigandi aðgerða. Þetta fólk sem kemur hingað flýgur ekki beint frá Makedóníu heldur flýgur það til dæmis frá Ungverjalandi. Makedónísk yfirvöld geta því ekki stöðvað það þegar það yfirgefur landið, það er vandinn,“ segir Saso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×