Orðhákar Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 22. mars 2016 06:00 Öll spjót standa á Sigmundi Davíð, forsætisráðherra, vegna upplýsinga um að eiginkona hans eigi fé í skattaskjóli og hafi verið kröfuhafi föllnu bankanna. Þetta er erfið staða fyrir mann, sem í félagi við fjármálaráðherra, leiddi viðræður við kröfuhafa fyrir Íslands hönd. Rætt er meðal þingmanna að lýsa vantrausti á forsætisráðherra. Ráðherrann fer með veggjum en gerir út sveit fótgönguliða til að kveða málið niður. Sveitin er stóryrt og ólíkleg til að lægja öldurnar. Þessi í stað hellir hún olíu á eld þeirra sem viðhalda helsjúkri pólítískri umræðu í landinu. Þingmaðurinn Karl Garðarsson kennir lunganum af fjölmiðlum um ófarirnar. Framsóknarflokkurinn sé "óvinur Ríkisútvarpsins númer eitt", og allir álitsgjafar þar, hefðu horn í síðu flokksins. Svona málflutningur á meira skylt við atvinnuróg en málefnalegt innlegg. Fólkið sem þingmaðurinn atyrðir er flest að vinna sína vinnu. Því miður er málflutningur hans ekkert einsdæmi - jafnvel frekar regla meðal óþægilega stórs hluta þingmanna. Forsætisráðherra stendur önnur leið til boða. Hún er sú og sú ein að koma fram sjálfur, og skýra mál sitt. Það var í besta falli yfirsjón að upplýsa ekki um þessi atriði, sem sannarlega kunnu að hafa áhrif á hæfi hans til að vera í fararbroddi í viðræðum við erlenda kröfuhafa. Jafnvel má halda því fram að það hafi verið skylda. Samkvæmt siðareglum ráðherra ber þeim að upplýsa um hvers konar hagsmunaárekstra sem kunna að hafa áhrif á störf þeirra. En niðurstaða samninga ríkisins við kröfuhafa var með þeim hætti að erfitt er að halda því fram að meintir hagsmunaárekstrar Sigmundar Davíðs hafi orðið honum fótakefli. Íslenska ríkið gekk fram af hörku, og náði niðurstöðu sem fáir létu sig dreyma um. Lee Bucheit, hinn þrautreyndi samningamaður, orðaði það svo að niðurstaðan væri einsdæmi í fjármálasögunni í samskiptum ríkisvalds og kröfuhafa. Þess vegna er ómerkilegt að halda því fram að fjárhagsleg tengsl Sigmundar hafi haft áhrif á niðurstöðu viðræðna við kröfuhafa. En Sigmundur Davíð átti að upplýsa um þessa staðreynd áður en af stað var farið. Undan því getur hann ekki vikist. Umræðan um þetta mál er einkennandi fyrir stjórnartíð Sigmundar Davíðs. Í stað þess að standa keikur og benda á afrekin sem við blasa lætur hann fótgönguliða standa í karpi um aukaatriði. Svo vænir hann forvera sína í ríkisstjórn um óheilindi í tengslum við Icesave, sem var lærdómsferli fyrir alla. Svona aðferðir benda til að fjölmargir ráðgjafar í forsætisráðuneytinu standi ekki í stykkinu. Sigmundur Davíð þarf að minna fólk á kosningaloforðin. Hann lofaði að leiðrétta skuldir fólks, og ná góðum samningum við kröfuhafana. Hvort tveggja hefur verið efnt meira eða minna. Hann ætti því að stíga fram og tala sínu máli, í stað þess að læðast með veggjum og láta pólitíska götustráka og –stelpur ganga sinna erinda. Kjósendur eiga rétt á því að hann komi fram og skýri mál sitt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun
Öll spjót standa á Sigmundi Davíð, forsætisráðherra, vegna upplýsinga um að eiginkona hans eigi fé í skattaskjóli og hafi verið kröfuhafi föllnu bankanna. Þetta er erfið staða fyrir mann, sem í félagi við fjármálaráðherra, leiddi viðræður við kröfuhafa fyrir Íslands hönd. Rætt er meðal þingmanna að lýsa vantrausti á forsætisráðherra. Ráðherrann fer með veggjum en gerir út sveit fótgönguliða til að kveða málið niður. Sveitin er stóryrt og ólíkleg til að lægja öldurnar. Þessi í stað hellir hún olíu á eld þeirra sem viðhalda helsjúkri pólítískri umræðu í landinu. Þingmaðurinn Karl Garðarsson kennir lunganum af fjölmiðlum um ófarirnar. Framsóknarflokkurinn sé "óvinur Ríkisútvarpsins númer eitt", og allir álitsgjafar þar, hefðu horn í síðu flokksins. Svona málflutningur á meira skylt við atvinnuróg en málefnalegt innlegg. Fólkið sem þingmaðurinn atyrðir er flest að vinna sína vinnu. Því miður er málflutningur hans ekkert einsdæmi - jafnvel frekar regla meðal óþægilega stórs hluta þingmanna. Forsætisráðherra stendur önnur leið til boða. Hún er sú og sú ein að koma fram sjálfur, og skýra mál sitt. Það var í besta falli yfirsjón að upplýsa ekki um þessi atriði, sem sannarlega kunnu að hafa áhrif á hæfi hans til að vera í fararbroddi í viðræðum við erlenda kröfuhafa. Jafnvel má halda því fram að það hafi verið skylda. Samkvæmt siðareglum ráðherra ber þeim að upplýsa um hvers konar hagsmunaárekstra sem kunna að hafa áhrif á störf þeirra. En niðurstaða samninga ríkisins við kröfuhafa var með þeim hætti að erfitt er að halda því fram að meintir hagsmunaárekstrar Sigmundar Davíðs hafi orðið honum fótakefli. Íslenska ríkið gekk fram af hörku, og náði niðurstöðu sem fáir létu sig dreyma um. Lee Bucheit, hinn þrautreyndi samningamaður, orðaði það svo að niðurstaðan væri einsdæmi í fjármálasögunni í samskiptum ríkisvalds og kröfuhafa. Þess vegna er ómerkilegt að halda því fram að fjárhagsleg tengsl Sigmundar hafi haft áhrif á niðurstöðu viðræðna við kröfuhafa. En Sigmundur Davíð átti að upplýsa um þessa staðreynd áður en af stað var farið. Undan því getur hann ekki vikist. Umræðan um þetta mál er einkennandi fyrir stjórnartíð Sigmundar Davíðs. Í stað þess að standa keikur og benda á afrekin sem við blasa lætur hann fótgönguliða standa í karpi um aukaatriði. Svo vænir hann forvera sína í ríkisstjórn um óheilindi í tengslum við Icesave, sem var lærdómsferli fyrir alla. Svona aðferðir benda til að fjölmargir ráðgjafar í forsætisráðuneytinu standi ekki í stykkinu. Sigmundur Davíð þarf að minna fólk á kosningaloforðin. Hann lofaði að leiðrétta skuldir fólks, og ná góðum samningum við kröfuhafana. Hvort tveggja hefur verið efnt meira eða minna. Hann ætti því að stíga fram og tala sínu máli, í stað þess að læðast með veggjum og láta pólitíska götustráka og –stelpur ganga sinna erinda. Kjósendur eiga rétt á því að hann komi fram og skýri mál sitt.