Viðskipti innlent

Ógjöfult ár á innlendum hlutabréfamarkaði

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um sjö prósent leiðrétt fyrir arðgreiðslum á árinu.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um sjö prósent leiðrétt fyrir arðgreiðslum á árinu. Vísir/GVA
Það sem af er ári hefur úrvalsvísitalan lækkað um sjö prósent leiðrétt fyrir arðgreiðslum. Um er að ræða viðsnúning milli ára en árið 2015 var 49 prósenta ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði.

Fram kemur í frétt á vef VÍB að fimm atriði hafi sérstaklega litað íslenska hlutabréfamarkaðinn á árinu: styrking krónunnar, aukin eftirspurn eftir fjármunum lífeyrissjóðanna, vaxtalækkanir og ekki vaxtalækkanir, kjarasamningar og áframhaldandi kraftur í fjölgun ferðamanna.

Arðsleiðrétt ávöxtun frá áramótum hefur verið mest hjá N1 eða 102,1 prósent og næstmest hjá Eimskipi þar sem hún nemur 45,7 prósentum. Hún hefur verið lægst hjá Icelandair og Granda þar sem hún hefur lækkað um yfir þrjátíu prósent.

Íslenska krónan hefur styrkst um 16 prósent á móti evru frá áramótum, 27 prósent gegn pundi og 21 prósent gagnvart sænsku krónunni. VÍB greinir frá því að fyrir innlend rekstrarfélög hafi þessi styrking fyrst og fremst verið jákvæð enda auðveldað þeim varðandi launahækkanir. Þessi breyting hefur hins vegar verið afar skaðleg þeim fjölmörgu félögum í kauphöllinni sem hafa hluta af sínum tekjum í erlendri mynt.

Bæði koma áhrifin fram þannig að tekjurnar eru fyrst og fremst í annarri mynt en krónu en hlutabréfin skráð í krónum og því lækkar virði tekna félagsins í krónum talið.

Kröftugar launahækkanir og vinnudeilur árið 2015 skiluðu sér í uppgjörum. Árið 2016 hefur því einkennst af hagræðingu, ekki síst hjá fjarskiptafélögum. Hugsanlegar vinnudeilur í byrjun 2017 hafa jafnframt spilað inn í væntingar fjárfesta, að því er kemur fram í fréttinni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×