Erlent

Konan í Ís­dalnum - Dular­fyllsta lög­reglu­mál Noregs opnað á ný

Nakið og illa brunnið lík finnst í stórgrýtisurð rétt utan við miðbæ Bergen. Allar vísbendingar um hver konan er hafa verið fjarlægðar. Í áratugi hefur enginn náð að þoka málinu áfram og eftir stendur þekktasta sakamál Norðmanna.

Svavar Hávarðsson skrifar
Í áratugi hefur enginn náð að þoka málinu um konuna í Ísdalnum áfram.

Tæplega hálf öld er liðin síðan tólf ára gömul stúlka, sem var í sunnudagsgöngu með föður sínum og yngri systur, gekk fram á illa brunnið lík konu í Ísdalnum – vinsælu útivistarsvæði spölkorn frá miðbæ Bergen í Noregi. Þau höfðu gengið langt inn í dalinn að svæði sem fáir sækja, og þar sem útsýnið er hvað stórkostlegast, skammt frá göngustígnum, blasir við þessi hryllilega sjón.

Það er langt liðið á nóvembermánuð og við tekur gangan heim til að tilkynna um líkfundinn – faðirinn heldur utan um litlu dæturnar sínar og lítur til baka á göngunni. Er morðingi á ferli í skóginum?

Innan um villt landslag og urð fannst lík Ísdalskonunnar nakið og brennt - aldrei hefur verið upplýst hver hún var.Björgólfur Hávarðsson

Á þessum nótum hefur blaðamaðurinn Ståle Hansen og samstarfsmenn hans frásögn sína af þekktasta og umtalaðasta lögreglumáli í sögu Noregs, sem norska ríkisútvarpið (NRK) hefur hafið sjálfstæða rannsókn á í samstarfi við lögregluyfirvöld þar í landi, þar á meðal norsku rannsóknarlögregluna í Ósló (Kripos). Það er gert í samstarfi við Brennpunkt – sjónvarpsþátt NRK þar sem fréttaskýringar og rannsóknarblaðamennska eru efnistökin.

Með umfjölluninni er vonast til að leiða gátuna um konuna í Ísdalnum til lykta – nú 46 árum eftir að lík hennar fannst.

Á vef NRK hafa verið birtar ítarlegar upplýsingar í röð blaðagreina og myndbrota sem byggja á gögnum málsins og nýjum rannsóknum á þeim. Yfirstandandi eru rannsóknir á jarðneskum leifum Ísdalskonunnar, eða lífsýni hennar og tönnum.

Beðið er eftir niðurstöðum úr DNA-rannsóknum, sem vonast er til að leiði í ljós hvaðan hún var. Allar nýjar upplýsingar eru birtar almenningi á vef NRK strax og þær liggja fyrir – svo segja má að Norðmenn leggist á eitt við að leysa þessa gömlu gátu. Fréttastofa 365 birtir hluta þessarar sögu í samstarfi við NRK og Brennpunkt.

Carl Halvor Aas var einn þeirra fyrstu sem komu á vettvang eftir að Ísdalskonan fannst.NRK/KJETIL SOLHØI

Óhugnanleg aðkoma

„Það fyrsta sem við tókum eftir var óþefurinn,“ segir Carl Halvor Aas, sem var á vakt í höfuðstöðvum lögreglunnar í Bergen þegar símtal barst um líkfundinn og var með þeim fyrstu á staðinn – aðrir sem það gerðu eru látnir.

Hann minnist þess hversu erfitt var að komast á fundarstaðinn – og þegar þangað kom var fyrsta hugdetta lögreglumannanna að konan hefði dottið á eldinn og hent sér síðan á bakið alelda.

„Stóra spurningin var, og er, hvort einhver hafði kveikt í henni, eða hvort skýringarnar væru aðrar. Þetta var ófögur sjón,“ segir Aas í viðtali við NRK.

Skömmu eftir að tilkynning barst var fjöldi rannsóknarlögreglumanna kominn að urðinni í Ísdalnum – lögreglumenn með hunda og málmleitartæki og aðrir frá tæknideildinni.

Þeir hefja störf við að rannsaka vettvanginn í kringum líkið sem liggur í kunnuglegri stellingu þeirra sem brenna – með hendurnar útréttar upp af efri hluta líkamans.

Í blautu grasinu finnast brunnir munir í eigu konunnar – leifar af innpökkuðu nesti, fötum, regnhlíf, tösku og tvær brunnar plastflöskur. Hálf flaska af líkjör er þar einnig, og nær ónýtt plasthulstur, líklega utan af vegabréfi, auk annarra hluta.

Í kringum brunnið líkið fundust leifar af innpökkuðu nesti, fötum, regnhlíf, tösku og tvær brunnar plastflöskur. Hálf flaska af líkjör er þar einnig, og nær ónýtt plasthulstur, líklega utan af vegabréfi, auk annarra hluta.POLITIET/STATSARKIVET BERGEN

Hver er hún?

Strax var ljóst að rannsóknin yrði ekki hefðbundin. Rannsóknarlögreglumennirnir veittu því athygli að merkimiðar höfðu verið nostursamlega klipptir af fötum konunnar. Það sama á við um alla muni sem finnast úr hennar eigu – jafnvel merkingar á plastflöskunum hafa verið skrapaðir af.

Í raun hefur fundarstaður hennar verið hreinsaður af öllu sem hugsanlega gæti gefið upplýsingar um hver konan var. Enn þann dag í dag er hún þekkt af málsnúmerinu sem henni var upphaflega gefið í Gades-stofnuninni þar sem hún var krufin: Óþekkt 134/70. Meðal Norðmanna er hún þó þekkt sem Ísdalskonan, og ungir sem gamlir þekkja mál hennar og hafa sínar eigin kenningar um afdrif hennar og uppruna.

Tæknimenn lögreglunnar á vettvangi daginn sem líkið fannst - allar vísbendingar um hver lá í grjótinu höfðu verið fjarlægðar.POLITIET/STATSARKIVET BERGEN

Gáta á gátur ofan

Í hugum lögreglumannanna sem rannsaka fundarstað Ískonunnar hrannast spurningamerkin strax upp – en þeim átti eftir að fjölga hratt á næstu dögum og vikum rannsóknarinnar.

Hægt og sígandi verður til stærsta og leyndardómsfyllsta sakamál Noregs. Eftir því sem rannsókn lögreglu fleygir fram fjölgar óleystum gátum í málinu – og við þessar aðstæður fara tilgátur á flug.

Rannsóknarmaður Kripos Sigbjørn Wathne.NRK/KJETIL SOLHØI

Sú staðreynd að ung kona, sem enginn þekkir til, finnst látin undir þessum kringumstæðum er óbærileg.  Það heyrist hvíslað hvort hún hafi verið njósnari – líflátin af eigin liðsmönnum eða óþekktum óvini.

Tengdist hún skipulagðri glæpastarfsemi? Fór hún ein inn í þennan fallega dal til að deyja fyrir eigin hendi? Ef svo: lagði hún þá sjálf allar þessar gátur fyrir væntanlega fundarmenn sína? Og af hverju þá?

Hjálp berst

Strax daginn eftir að líkið fannst var lögreglunni í Bergen ljóst að málið var ekki einfalt – og jafnvel þeim ofviða. Þá þiggja þeir aðstoð rannsóknarlögreglunnar í Ósló (Kripos) sem þeir höfðu afþakkað í byrjun.

Næstu daga er öllu tjaldað til svo bera megi kennsl á konuna. Auk lögreglunnar í Bergen og frá Kripos er haft samband við Interpol og lögregluembætti um alla Evrópu. Fátt finnst sem hönd er á festandi – svo virðist sem konunni í Ísdalnum hafi tekist að láta sig hverfa sporlaust.

Svo hafði verið gengið frá að engin sönnunargögn að ráði fundust í töskunum tveimur.POLITIET/STATSARKIVET I BERGEN

Sigbjørn Wathne, rannsóknarlögreglumaður hjá Kripos, sem nú er 79 ára vann að rannsókn málsins.

Hann segir að málið sé í sínum huga, og margra annarra lögreglumanna sem eru gengnir til feðra sinna, að konan hafi verið á flótta, og þess vegna kerfisbundið reynt að fela uppruna sinn.

Málið er og var leyndardómur, segir Wathne við NRK.

Þremur dögum eftir líkfundinn vöknuðu vonir um að lausn málsins væri nærri – en þá fundust ferðatöskur konunnar í farangursherbergi á lestarstöðinni í Bergen.

Í annarri þeirra fundust sólgleraugu og fingrafar á glerinu sem passar við lík konunnar. Vonir lögreglunnar um lausn málsins eru fljótt kæfðar í fæðingu. Eins og af líkinu hafa allar vísbendingar verið hreinsaðar burt af sömu smásmugulegu nákvæmninni og fyrr.

Allt er horfið – merkingar af fatnaði hafa verið klipptar burt. Hár hefur verið hreinsað úr greiðu og hárbursta – ásamt merkingum framleiðenda. Innan um fötin fundust hárkollur, og gleraugu með venjulegu gleri eins og um leikmuni væri að ræða. Þetta og aðrir munir sýna að Ísdalskonan átti létt með að dulbúast.

Hér á brautarstöðinni í Bergen fundust ferðatöskur Ísdalskonunnar í geymslu - miklar vonir voru bundnar við að töskurnar upplýstu málið en ekkert varð úr þvíVísir/Björgólfur Hávarðsson

Smá glæta

Tvennt fannst þó í töskunum tveimur sem lögreglan gat þrætt sig eftir: Skrifblokk og innkaupapoki. Þessa skrifblokk grófu blaðamenn NRK upp í gögnum málsins sem geymd eru á svæðisskjalasafninu í Bergen – þar sem hún lá innan um blaðastafla.

Ein síða hennar er útfyllt með tölum og táknum, en þá er það upp talið. Um dulmál er að ræða sem lögreglunni tókst að ráða mörgum dögum eftir að rannsóknin hófst. Pokinn er hins vegar frá skóbúð Oscar Rørtvedt á Nygaten í Stavanger, borg sem liggur 200 kílómetra sunnan við Bergen. Þar kannast 22 ára gamall sonur eigandans vel við konuna. Þremur vikum fyrr hafði hún keypt sér blá stígvél frá Askim Gummivarefabrik – skæði sem hálf kvenþjóð Noregs klæddist um 1970. Það sem öllu skiptir fyrir lögregluna er að stígvélin fundust hjá líkinu og því fyrsta glætan í rannsókn sem var farin að taka á taugarnar hjá öllum viðkomandi.

Nú fyrst fékkst góð lýsing á útliti konunnar. Meðalhá, sítt dökkt hár, dökkbrún augu. Aðlaðandi og íturvaxin. Í viðtali við NRK lýsir afgreiðslumaðurinn, Rolf Rørtvedt, henni sem sjarmerandi konu, sem spurði margs og tók sér tíma við að ákveða hvað skyldi keypt. Hún talaði bjagaða ensku og af henni lagði óvenjulega lykt. Rørtvedt vissi síðar hvað olli, en nokkru síðar varð hvítlaukur algengur í norskri matargerð og þá áttaði hann sig á lyktinni. Ísdalskonan angaði af hvítlauk.

Finella Lorck …

Nú gerðust hlutirnir hratt. Í krafti nýrra upplýsinga og lýsingar á konunni þræddu lögreglumenn hótel og veitingastaði og spurðust fyrir. Stutt frá skóbúðinni hafði hún gist á St. Svithun-hótelinu. Afgreiðslukona þekkir hana af lýsingunni. Hún hafði gist undir nafninu Finella Lorck, og sagðist vera frá Belgíu.

Skúringakona á hótelinu kannast við bláu stígvélin – svo lögreglan ályktar skiljanlega: Líkið í Ísdalnum er af Finellu Lorck frá Belgíu. Hún hafði ferðast frá Stavanger til Bergen, þar hafði hún gist og þar hafði hún varið sínum síðustu dögum.

Norsku dagblöðin birtu þessa daga fréttir undir fyrirsögnum sem allar vísuðu í eina átt. Málið yrði upplýst innan tíðar.

En raunin varð önnur. Konan í Ísdalnum hafði falið spor sín of vel, því engin Finella Lorck hafði tékkað sig inn á hótelin í Bergen. Blaðamenn á þessum tíma, og þar á meðal hinn þjóðþekkti glæpaskríbent Verdens Gang, Knut Haavik, furða sig á því að lögreglan leitar ekki til almennings í leit að upplýsingum.

Innan lögreglunnar ríkir þögn og fátt gefið upp frá fyrsta degi. Síðar kom í ljós hvers kyns var – leyniþjónusta Noregs vann að málinu á bak við tjöldin – nokkuð sem var staðfastlega neitað um margra ára skeið.

Árið 1970 þurftu allir sem bókuðu sig inn á hótel í Noregi að fylla út sérstakt eyðublað. Þannig gat lögreglan séð að Ísdalskonan framvísaði sjö vegabréfum í Noregi á stuttum tíma. Allar upplýsingar sem konan gaf reyndust falskar.POLITIET

Mörg andlit

Árið 1970 þurftu allir útlendingar sem komu til Noregs og gistu á hótelum landsins að fylla út sérstakt eyðublað. Þar skyldi gefið upp nafn, heimilisfang, númer á vegabréfi auk undirskriftar. Þessi eyðublöð voru helsta von lögreglunnar eftir að lýsing á konunni fékkst. Eitt slíkt var í hendi frá hótelinu í Stavanger auk rithandarsýnis úr skrifblokkinni sem fannst í ferðatöskunni.

Svör frá hótelum um allan Noreg við fyrirspurnum lögreglunnar streymdu inn næstu vikur. Rithandarsérfræðingar Kripos rannsökuðu eyðublöð frá hendi útlenskra kvenna sem gist höfðu á norskum hótelum ári fyrir þann tíma að lík Ísdalskonunnar fannst. Það sem fannst kom, eins og allt annað í rannsókninni, á óvart.

Konan í Ísdalnum reyndist hafa ferðast milli borga og bæja í Noregi svo vikum skipti. Í hvert sinn notaði hún nýtt nafn og lögreglunni var ljóst að hún hafði undir höndum sjö vegabréf hið minnsta. Auk þess að kynna sig sem Finellu Lorck hafði hún gengið undir nöfnunum Claudia Tielt, Vera Jarle, Alexia Zarna-Merchez, Claudia Nielsen, Genevieve Lancier og Elisabeth Leenhouwfr. Síðar komu fram upplýsingar um að hún gisti á nokkrum hótelum í höfuðborg Frakklands, París, undir nafninu Vera Schlosseneck.

Spor konunnar fundust í Ósló, Bergen, Stavanger og Þrándheimi. Alltaf segist hún vera belgísk sama hvaða nafn hún notar. En lögregluyfirvöld í Belgíu kannast ekkert við konuna – lýsinguna á henni eða nöfnin átta sem hún notar á víxl. Engin þessara kvenna er raunverulega til.

Njósnaveiðar

Viku eftir að rannsókn málsins hófst leitaði lögreglan í Bergen til norsku leyniþjónustunnar – nokkuð sem yfirmenn hennar þvertóku fyrir í áratugi. Þá höfðu fjölmiðlar strax velt sér upp úr því hvort Ísdalskonan væri útsendari – njósnari að störfum í miðju kalda stríðinu. Þetta liggur því til grundvallar að lögreglan leitaði mjög seint til almennings um upplýsingar. Blaðamenn sem skrifuðu um málið frá upphafi halda því enn fram að Ísdalskonan hafi verið útsendari frá ónefndu ríki, og átta nöfn og jafn mörg vegabréf sem hún notaði á ferðum sínum séu því til sönnunar.

Á sama tíma og leyniþjónustan norska mun hafa fengið málið inn á sitt borð tókst lögreglunni loksins að ráða dulmálið í skrifblokkinni sem fannst í ferðatösku Ísdalskonunnar. Það sem þar var skrifað kemur heim og saman við upplýsingar eyðublaðanna frá hótelum víðs vegar að – og reynist vera ferðaáætlun hennar um Evrópu. Þar reynast vera upplýsingar um ferðalög hennar og þar á meðal um Noreg vorið og haustið 1970.

Þar má sjá að hennar hinsta ferð var frá París til Stavanger, þaðan til Bergen, til Þrándheims, aftur til Stavanger og loks til Bergen þar sem ferð hennar endaði loks á köldu stórgrýtinu í Ísdalnum. Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem reyndust verða síðasta vísbendingin til lausnar málsins. Öllum fyrirspurnum rannsóknarlögreglumannanna, sem voru sendar til Interpol og til kollega um alla Evrópu, Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, er svarað á sama hátt: Nöfnin og númer vegabréfanna leiða alla í öngstræti. Lýsing konunnar kemur ekki heim og saman við konur sem er saknað og lýst hefur verið eftir.

Vegna þess hversu margar tennur Ísdalskonunnar voru viðgerðar, þar sem gullkrónur voru margar, urðu tennur hennar eitt af helstu gögnum rannsóknarinnar.POLITIET/STATSARKIVET BERGEN

Tíu tennur með gullkrónu

Tennur Ísdalskonunnar verða haldreipi lögreglunnar. Tíu af tönnum hennar eru með gullkrónu – en sérfræðingur lögreglunnar upplýsir strax að þær geti ekki hafa verið settar upp af tannlækni í Skandinavíu.

Lögun þeirra og gerð benda til Austurlanda, eða hluta af sunnanverðri eða Mið-Evrópu, stendur skrifað í skýrslum sem NRK fer yfir. Nákvæmar er ekki hægt að staðsetja konuna út frá tönnum hennar og vísbendingin þokar málinu lítið áfram. Sérfræðingurinn Gisle Bang vann árum saman við að rannsaka tennurnar, með aðstoð kollega um allan heim. Þess vegna er þessa sögu að finna í fjölmörgum sérfræðiritum tannlækna og tannsmiða á mörgum tungumálum. Þegar Gisle Bang féll frá árið 2011 var hann engu nær.

Dánarorsök

Undir jól 1970 var rannsóknin í sjálfheldu. Krufning leiddi í ljós að Ísdalskonan hafði innbyrt stóran skammt af lyfinu Fenemal – sterku róandi og ávanabindandi lyfi – nokkrum klukkutímum áður en hún lést. Það er túlkað af lögreglu sem vísbending um að hún hafi framið sjálfsmorð, því hvernig átti að þröngva henni til að taka inn svo mikið magn lyfja gegn vilja sínum, er spurt.

Réttarlæknar komast að þeirri niðurstöðu að dánarorsökin sé af völdum lyfja- og kolsýringseitrunar. Brunasár gætu hafa haft sitt að segja. Efnafræðingur Kripos, Tormod Bønes, sem var viðstaddur krufninguna, fann einnig merki um bensín í jarðvegi undir líkinu, og staðfesti hvað var notað til að kveikja eldinn.

„Nú, eins og þá, veit ég ekki hvað raunverulega gerðist. Það er erfitt að vera 100% viss, en ég styð niðurstöðurnar frá 1970 þótt það sé ekki hægt að útiloka morð eða slys,“ segir Tormod í viðtali við NRK.

Rétt fyrir jólin 1970 kallaði yfirmaður innan lögreglunnar í Bergen, Oskar Hordnes, til blaðamannafundar þar sem hann greindi frá stöðu rannsóknarinnar. Í stuttri yfirlýsingu segir hann málið óupplýst á meðan ekki takist að upplýsa hver Ísdalskonan var. Nokkrum dögum síðar bætir lögreglustjórinn, Asbjørn Bryhn, um betur og gefur afdráttarlausa niðurstöðu – sjálfsmorð. Hans skoðun er sú að Ísdalskonan hafi verið veik á geði sem skýri málavöxtu. Í byrjun nýs árs eru svo til allir sem að málinu komu horfnir til annarra verkefna.

Spurningar og svör

Því er öllum grundvallarspurningum málsins enn ósvarað, nú 46 árum síðar. Hver var dularfulla konan í Ísdalnum? Hvað var hún að gera í Noregi? Af hverju dró hún síðast andann djúpt inni í hrjóstrugum dal – og brann þar ein til bana?

Fyrir marga lögreglumenn varð málið áfall sem þeir náðu aldrei að vinna úr. Þeir töldu sig hafa brugðist skyldum sínum með því að mistakast að bera kennsl á konuna í Ísdalnum. Sumir hverjir sættu sig aldrei við niðurstöðuna – að hún hefði framið sjálfsmorð.

Undir það tekur blaðamaðurinn Knut Haavik, sem þekkir málið betur en flestir sem enn eru á lífi og höfðu bein afskipti af rannsókninni. Hann er sannfærður um að Ísdalskonan hafi verið myrt. Kona sem gengur undir átta mismunandi nöfnum, dulbýr sig og skrifar hjá sér upplýsingar á dulmáli, ferðast borga á milli með nokkurra daga millibili og skiptir um hótel ótt og títt – og finnst svo brunnin og afskræmd? Það dugir honum til að hafna niðurstöðu lögreglunnar alfarið.

Síðustu metrarnir

Sálmurinn fagri, Lýs milda ljós, fyllir kapelluna við Møllendal-kirkjugarðinn í Bergen kaldan febrúardag 1971. Á bekkjum situr lítill hópur karla og kvenna sem öll tilheyra lögreglu borgarinnar.

Ekkert þeirra veit hver konan í hvítu kistunni er, en þau dást að fallegri blómaskreytingunni. Kistan var valin af þeim – og er úr málmi. Það er talið nauðsynlegt því ef einhver vitjar konunnar sem þar hvílir, þarf hún að komast til síns heima. Þangað til mun þó enginn legsteinn merkja leiðið hennar, því enginn veit hvað þar ætti að standa.

Ísdalskonan var jörðuð í málmkistu svo mögulegt yrði að senda hana til síns heima yrðu borin á hana kennsl. Enginn hefur ennþá gefið sig fram sem veit hver hún var.POLITIET/STATSARKIVET BERGEN

Ljósmyndari lögreglunnar tekur myndir af kveðjuathöfninni og jarðsetningunni. 

Lögreglumanni er sett fyrir að lýsa þessari dapurlegu stund og leggja skrif sín með öðrum rannsóknargögnum málsins. Myndirnar og texti lögreglumannsins komu fyrst fyrir sjónir almennings fyrir stuttu, eftir að blaðamenn NRK og Brennpunkt fundu þær innan um önnur málsgögn. Síðan eru liðin 46 ár – en engir ættingjar hafa gefið sig fram eða vitjað konunnar sem hvílir í Møllendal-kirkjugarðinum. Því er mál hennar rétt eins mikill leyndardómur nú og það var daginn sem hún fannst.

Hér hvílir Ísdalskonan í ómerktri gröf - það er baráttumál í Noregi að leiði hennar verði merkt.Vísir/Björgólfur Hávarðsson

Umfjöllunin er unnin í samvinnu við NRK og þýdd og endursögð úr skrifum blaðamannanna Ståle Hansen, Marit Higraff, Øyvind Bye Skille, Eirin Aardal, Ellen Borge Kristoffersen og Bjørn Giertsen.

Á vef NRK má kynna sér málið nánar. Hér er aðalsíðan á norsku en einnig er hægt að finna útdrætti á ensku og þýsku.






×