Innlent

Tvisvar tilkynnt um nakta eða fáklædda menn á gangi utandyra á Akranesi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nokkuð kalt var á Akranesi þegar tilkynnt var um ferðir mannanna.
Nokkuð kalt var á Akranesi þegar tilkynnt var um ferðir mannanna. Vísir/GVA
Í liðinni viku var í tvígang tilkynnt til lögreglu um nakta eða fáklædda menn á gangi utandyra á Akranesi. Annar mannanna fannst á röltinu og var honum komið til aðstoðar en hinn maðurinn er ófundinn. Hann var reyndar bara ber að ofan að því er segir í tilkynningu lögreglunna á Vesturlandi en hitastigið var með lægra móti þegar tilkynnt var um ferðir mannanna og nokkur næðingur að norðan.

Sjö umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi en flest voru þau minniháttar og vegna vetrarfærðar. Engin alvarleg meiðsl urðu á fólki en í tilkynningu lögreglu segir um tvö þessara óhappa:

„Síðastliðinn fimmtudag var fólksbíl ekið inn í skafl sem var á Vesturlandsvegi við Beitistaði og missti ökumaðurinn bílinn útaf og hafnaði hann á hvolfi utan vegar. Fimm voru í bílnum og sakaði þá ekki enda allir í bílbeltunum. Þeim var hins vegar orðið nokkuð kalt og fengu þeir að setjast inn í snjóruðningstæki sem kom á staðinn, á meðan beðið var eftir lögreglunni sem að kom þeim síðan til byggða. Þá rann jeppi erlendra ferðamanna útaf í hálku og valt á Skógarströnd sl. mánudag. Klakaklammi var á veginum og bíllinn var á ónegldum snjódekkjum. Fólkið slapp án teljandi meiðsla en það var í öryggisbeltum og líknarbelgir bílsins sprungu út þeim til varnar.“

Tilkynningu lögreglunnar í heild má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×