Arion banki hefur eignast 100% hlutafjár í tryggingarfélaginu Verði. Samið var um kaup Arion banka á Verði af BankNordik í október á síðasta ári en samningurinn var skilyrtur og meðal annars háður samþykki opinberra aðila.
Hafa öll skilyrði samningsins verið uppfyllt og kaupin því gengin í gegn samkvæmt tilkynningu frá Arion banka. Kjörin hefur verið ný stjórn Varðar. Í henni sitja Helgi Bjarnason, formaður, Ásta Guðjónsdóttir, Guðný Benediktsdóttir, Marinó Örn Tryggvason og Þorvarður Sæmundsson.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion Banka segir að ánægjulegt sé að kaupin hafi gengið í gegn. Tekið hafi lengri tíma en búist var við að uppfylla skilyrði samninganna.
„Það er mikilvægur þáttur í okkar stefnu að bjóða viðskiptavinum okkar alhliða fjármálaþjónustu og með kaupunum á Verði þá bætast skaðatryggingar við okkar fjölbreytta vöru- og þjónustuframboð, en líftryggingar hafa lengi verið hluti af okkar þjónustu í gegnum Okkar líftryggingar. Vörður er öflugt fyrirtæki með sterkt vörumerki á íslenskum tryggingamarkaði og við hlökkum til frekari uppbyggingar félagsins,“ er haft eftir Höskuldi í tilkynningu frá bankanum.
Kaup Arion banka á Verði gengin í gegn

Tengdar fréttir

Arion banki kaupir Vörð
51% hlutur BankNordik í Verði er metinn á 2,7 milljarða íslenskra króna.