„Svona fréttir ylja manni um hjartarætur,“ skrifar tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson á Facebook-síðu sína þar sem hann segist hafa hitt tvo unga menn með stuttu millibili sem hafa misst rúmlega tuttugu kíló og það hafi verið Valdimar sjálfur sem ýtti þeim út í þessa lífsstílsbreytingu.
Það var í október í fyrra sem Valdimar setti fram stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagðist þurfa að grenna sig, hætta að vera latur og lifa lífinu. Öðrum kosti sá hann fram á að enda einn í kjallaraíbúð og deyja fyrir aldur fram.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Frá október hefur Valdimar misst 50 kíló af fitu og bætt á sig tæpum þrjátíu kílóum af vöðva. Hann stefnir á að fara tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu og hefur nú þegar farið þá vegalengd. Hann hefur farið í fjallgöngu og getur nú aftur spilað körfubolta með vinum sínum.
Valdimar hefur verið duglegur að greina frá áfangasigrum á samfélagsmiðlum og má ætla að margir sæki innblástur í þetta viðhorf hans. Til að mynd þessir ungu menn sem hafa greint honum frá þeirra breytingu sem fékkst með innblæstri frá Valdimari sjálfum vegna stöðuuppfærslunnar sem hann birti í október síðastliðnum og æfinga hans fyrir Reykjavíkurmaraþonið.
Hafa misst rúm 20 kíló vegna innblásturs frá Valdimar

Tengdar fréttir

„Ég er matarfíkill með offitusýki“
Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður hefur unnið þrekvirki á nokkrum vikum og losað sig við 50 kíló af fitumassa.