Íslenski boltinn

Frábær karaktersigur KR-kvenna í kvöld | Úrslitin í kvennafótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir, til hægri, skoraði tvö mörk fyrir KR í kvöld.
Ásdís Karen Halldórsdóttir, til hægri, skoraði tvö mörk fyrir KR í kvöld. Vísir/Eyþór
KR-konur hoppuðu upp úr fallsæti Pepsi-deildar kvenna og fögnuðu sigri í fyrsta sinn í sumar þegar liðið vann mikinn karaktersigur á Selfossi á KR-vellinum í kvöld. KR vann leikinn 4-3 en það leit ekki út fyrir KR-sigur skömmu fyrir leikslok.

KR-liðið var nefnilega tveimur mörkum undir þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum en KR-konur tryggðu sér þrjú stig með því að skora þrjú mörk á lokamínútum leiksins.

Hin stórefnilega  Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði tvö mörk fyrir KR-liðið í kvöld en hún jafnaði bæði í 1-1 og 3-3. Sigurmarkið skoraði hinsvegar Fernanda Vieira Baptista á 86. mínútu leiksins.

Sigríður María S Sigurðardóttir hóf endurkomuna með því að minna muninn í 3-2 en hún átti líka mikinn þátt í sigurmarki KR-liðsins.

Lauren Elizabeth Hughes skoraði tvö mörk fyrir Selfoss og lagði upp það þriðja sem Anna María Friðgeirsdóttir skoraði á 63. mínútu og kom Selfossliðinu í 3-1. Þá stefndi allt í þriðja útisigur Selfoss-liðsins í röð en annað kom á daginn.

Úrslit og markaskorarar í Pepsi-deild kvenna í kvöld:

ÍBV - ÍA 2-0

1-0 Natasha Moraa Anasi (42.), 2-0 Lisa-Marie Woods (77.)



KR - Selfoss 4-3

0-1 Lauren Elizabeth Hughes (9.), 1-1 Ásdís Karen Halldórsdóttir (54.), 1-2 Hughes (55.), 1-3 Anna María Friðgeirsdóttir (63.), 2-3 Sigríður María S Sigurðardóttir (79.), 3-3 Ásdís Karen Halldórsdóttir (85.), 4-3 Fernanda Vieira Baptista (86.).

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×