Þetta er nýjasta kynslóð af farþegaþotum, hönnuð sérstaklega til að mæta kröfum borgarsamfélaga með minni flugvelli. Framleiðendur segja að hún sé hljóðlátasta farþegaþotan sem framleidd er í heiminum í dag, með fjórfalt minna hljóðspor en eldri vélar. Hún hefur samt sem áður langt flugdrægi, sem gefur henni færi á að þjóna helstu áætlunarleiðum til og frá Íslandi.
„Þessi vél er aðeins minni en stærri Boeing- og Airbus-vélarnar. Það er gap á markaðnum milli minni vélanna og Boeing- og Airbus-vélanna og við erum að reyna að brúa það bil,“ segir flugstjórinn Mark Elliot.

„Já, þess vegna erum við að koma hingað í dag og eins og þú veist er nokkuð hvasst hér í dag. Við ráðum vel við brautina. Við verðum með fulla tanka af eldsneyti við flugtak héðan og munum fljúga beint til Wichita í Kansas,“ sagði Mark Elliot fyrir flugtak en flugtíminn þangað var áætlaður um sjö og hálf klukkustund.
„Við getum flogið bæði frá Keflavík og Reykjavík beint til Evrópu eða Bandaríkjanna án vandkvæða með fulla vél af farþegum,“ sagði flugstjórinn.

Þegar við fylgdumst með flugtakinu á Reykjavíkurflugvelli biðum við spenntir að sjá hvort flugstjóranum dygði hálf flugbrautin til að taka hana á loft. Jú, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2 lék hann sér að því og spurning hvort þotur eins og þessar gefi Íslendingum aftur færi á því að ferðast út í heim beint frá Reykjavík.