Körfubolti

Brynjar Þór: Nú er að sýna Haukum að þeir eiga ekki möguleika í okkur

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Brynjar skoraði 16 stig í kvöld.
Brynjar skoraði 16 stig í kvöld. vísir/vilhelm
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, átti góðan leik þegar Vesturbæingar slógu Njarðvík úr leik í undanúrslitum Domino's deildarinnar í kvöld.

Hann tók undir með blaðamanni Vísis að leikurinn í kvöld væri sá besti hjá KR í einvíginu við Njarðvík og jafnvel úrslitakeppninni allri.

„Jú, algjörlega. Það sýnir sig að þegar við spilum á okkar krafti og höldum einbeitingu, þá á ekkert lið möguleika í okkur. Við vorum bara miklu betri í dag og fengum frábært framlag frá öllum. Það lögðu allir í púkkið,“ sagði Brynjar sigurreifur eftir leik.

KR-ingar voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna og hittu úr 53% skota sinna þaðan.

„Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta, menn létu þetta bara fljúga. Menn hugsuðu ekkert of mikið og það er best í svona leikjum,“ sagði Brynjar sem var ánægður með varnarleik KR í kvöld.

„Þeir spila betur í Njarðvíkurhúsinu, Logi [Gunnarsson], Maciej [Baginski] og allir þessir strákar. Þeir voru með kraft þar en voru bara búnir á því í kvöld.“

KR-ingar fá þrjá daga til að undirbúa sig fyrir úrslitaeinvígið við Hauka sem hefst á þriðjudaginn. Brynjar býst við erfiðum leikjum gegn Hafnfirðingum sem hafa verið á miklu skriði að undanförnu.

„Það er alltaf gott að koma úr oddaleikjaseríu og fara í fyrsta leik. Við erum tilbúnir í allt og nú er bara að sýna Haukunum að þeir eiga ekki möguleika í okkur,“ sagði Brynjar.

„Þeir eru flott lið og fljúga á einhverju skýi núna en við ætlum okkur að taka þá af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×