Sport

White: Nunes fær aldrei aftur aðalbardaga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
White og Nunes.
White og Nunes. vísir/getty
Dana White, forseti UFC, var brjálaður út í bantamvigtarmeistarann Amöndu Nunes eftir að hún dró sig úr bardaganum gegn Valentinu Shevchenko um nýliðna helgi með aðeins nokkurra klukkutíma fyrirvara.

Nunes segist vera með króníska ennisholubólgu og hafi ekki liðið vel í niðurskurðinum. Á endanum hafi hún ekki treyst sér í bardaga en þetta er í fyrsta skipti sem hún dregur sig úr bardaga.

Bardagi Nunes og Shevchenko átti að vera aðalbardaginn á UFC 213 en White er svo reiður út í Nunes að hann ætlar aldrei aftur að gefa henni aðalbardaga hjá sambandinu.

„Læknarnir sögðu að það væri í lagi með hana. Hún var líkamlega í lagi til þess að berjast en henni leið ekki vel. Ég held að þetta hafi verið 90 prósent andlegt og 10 prósent líkamlegt. Það hafa margir barist þó svo þeir hafi ekki alveg verið 100 prósent. Ég mun ekki gefa henni aðalbardaga eftir þetta,“ sagði White hundfúll.

Þessi afstaða forsetans kemur á óvart. Aðalkvenstjarna UFC, Ronda Rousey, mun líklega aldrei berjast aftur og UFC gat vel haldið áfram að gera Nunes að stjörnu. Með þessu er White nánast að kasta þyngdarflokkinum í ruslið.

Svo þykir hann heldur ekki vera samkvæmur sjálfum sér. Jon Jones hefur brugðist UFC áður og átti aldrei að fá aðalbardaga aftur. Hann er aftur á móti að fá aðalbardaga í lok mánaðarins.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×