Viðskipti innlent

Sölvi Blöndal hvatti hagfræðinga til að vera duglega við að tjá sig opinberlega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. vísir/eyþór
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var í gær valinn hagfræðingur ársins á Íslensku þekkingarverðlaununum en það er Félag viðskipta-og hagfræðinga (FVH) sem veitir verðlaunin árlega.

Bláa lónið hlaut svo sjálf þekkingarverðlaunin en fyrirtækið var tilnefnt ásamt Norðursiglingu og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem veitti verðlaunin fyrir hönd FVH.

Í frétt um verðlaunin á vef FVH kemur fram að þegar Sölvi tók á móti verðlaununum sagði hann „að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins, þar sem öll þau verðlaun sem hann hafi tekið við hingað til hefðu verið vegna tónlistarinnar.“

Þá talaði Sölvi um það að hagfræðingar væru mikilvægir fyrir samfélagið og sagði að þeir þyrftu að vera duglegir við að tjá sig opinberlega. Þeir ættu að segja frá niðurstöðum greininga sinna þó að þær ættu ekki ávallt upp á pallborðið og sagði Sölvi að það gæti verið erfitt að tala á móti straumnum.

„Hagfræðin er lykillinn í því að taka góðar ákvarðanir hvort sem það er fyrir einstaklinga eða okkur öll sem heild,“ sagði Sölvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×