Lífið

Opnað fyrir innsendingar laga í Eurovision: Verðlaunaféð hækkað

Stefán Árni Pálsson skrifar
Svala Björgvinsdóttir var fulltrúi Íslendinga í Eurovision í ár með lagið Paper. Hún hafnaði í 15. sæti fyrra undanúrslitakvöldið og var nokkuð frá því að komast í úrslit.
Svala Björgvinsdóttir var fulltrúi Íslendinga í Eurovision í ár með lagið Paper. Hún hafnaði í 15. sæti fyrra undanúrslitakvöldið og var nokkuð frá því að komast í úrslit. Vísir/EPA
Söngvakeppnin verður haldin í febrúar og mars 2018 en opnað var fyrir innsendingar laga í hádeginu í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV. 

„Við leitum að 12 lögum sem hafa burði til að koma Íslandi alla leið í Eurovision! Höfundar sigurlagsins fá að launum þrjár milljónir króna til eigin ráðstöfunar og þann heiður að keppa fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon í Portúgal, í maí á næsta ári. Verðlaunaféð hefur verið hækkað úr einni milljón í þrjár,“ segir í tilkynningunni.

Tvær forkeppnir og glæsileg úrslitakeppni í Laugardalshöll

Fyrirkomulag keppninnar verður með svipuðu sniði og fyrri ár. Forkeppni verður haldin dagana 10. og 17. febrúar í Háskólabíói, þar sem sex lög keppa og þrjú komast áfram hvort kvöldið.  Úrslitakvöldið verður tveimur vikum síðar, 3. mars 2018. Þar keppa sex lög keppa til úrslita.  Úrslitin fara fram í Laugardalshöll eins og undanfarin tvö.

98% þeirra sem horfðu á sjónvarp úrslitakvöldið fylgdust með keppninni í fyrra, sem er met.  Nýjar stjörnur urðu til í íslensku tónlistarlífi og Svala Björgvinsdóttir var þjóðinni til sóma með einlægum og framúrskarandi flutningi á laginu Paper í Kænugarði.

Líkt og síðustu ár býðst almenningi að vera á staðnum og fá Söngvakeppnina beint í æð og verður miðasala auglýst síðar.  Öll þrjú kvöldin verða skemmtun sem enginn má láta fram hjá sér fara, hvorki þátttakendur, gestir í sal, né sjónvarpsáhorfendur.  

Hægt er að hlaða upp lögum inn á www.songvakeppnin.is fram til föstudagsins 20. októberkl. 23.59. Ekki verður hægt að hlaða upp lögum eftir þann tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.