Lífið

Óskar eftir að fá að sýna heima hjá ókunnugum

Guðný Hrönn skrifar
Brogan leitar nú að sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á að breyta heimili sínu í leikhús eina kvöldstund.
Brogan leitar nú að sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á að breyta heimili sínu í leikhús eina kvöldstund.
Hin breska Brogan Davison úr sviðslistahópnum Dance for Me leitar nú að fólki sem hefur áhuga á að breyta heimili sínu í leikhús eina kvöldstund með því að hýsa sýninguna The Brogan Davison Show. Í þeirri sýningu segir Brogan brandara og sögur úr uppvexti sínum í breskri verkamannastétt, gefur vafasöm heimilisráð og syngur lög og fleira.

Aðspurð hvernig heimilum hún sé að leita að segir Brogan sig vera opna fyrir öllu í Reykjavík. „Hver og einn vettvangur hefur upp á eitthvað nýtt að bjóða hverju sinni. Þannig að ef fólk er opið fyrir að bjóða mér heim til sín, þá er það heimilið sem ég er áhugasöm um. Það er alltaf notalegt að vera boðið inn á heimili fólks,“ segir Brogan sem mun flytja sýninguna á fimm heimilum.

Húsráðandi gegnir svo því hlutverki að bjóða gestum að koma á sýninguna. „Gestgjafinn býður þeim sem hann vill á sýninguna; vinum, fjölskyldu, nágrönnum, plöntum eða gæludýrum og hann þarf líka að vera heima nokkrum klukkustundum áður en sýningin hefst, svo ég geti komið við og undir­búið allt saman. Ég og gestgjafinn ákveðum í sameiningu hvar sviðið á að vera og og ég set upp leikhúslýsingu. Svo á meðan á sýningunni stendur þá ber ég ábyrgð á að bjóða upp á góðan gjörning,“ segir Brogan spurð út í hvaða hlutverki gestgjafinn gegni, fyrir utan að bjóða fram heimili sitt.

Brogan Davison og Pétur Ármannsson mynda sviðslistahópinn Dance for Me sem var stofnaður árið 2013.MYND/SigurðUR ÞÓR
Brogan segir hugmyndina um að færa sýningu inn á heimili fólks sprottna út frá því að vanalega er dæminu snúið við. „Við færum oft raunverulegar sögur og upplifanir fólks upp á svið. Í þetta sinn vildum við prófa að snúa þessu við og færa sviðið inn í raunverulegt umhverfi,“ útskýrir Brogan sem bendir einnig á að varnarleysi sé eitt aðal viðfangsefni Dance For Me.

„Þetta fyrirkomulag býður svo sannarlega upp á berskjöldun, bæði fyrir mig sem flytjanda og eins húsráðandann.“

„En þetta er ákveðin samvinna og ég vona að gestgjafinn sé glaður og stoltur eftir kvöldið. Það myndast frábær stemmning þegar öllum er troðið inn í stofu til að njóta sýnigar,“ segir Brogan glöð í bragði.  

Að lokum bendir Brogan áhugasömum á að sækja um að vera gestgjafi á netfangið danceformetour@gmail.com með fyrirsögninni „Ég vil bjóða heim The Brogan Davi­son Show“. Umsóknarfrestur er til 20. október. Verkið verður svo frumsýnt á alþjóðlegu sviðslistahátíðinni Everybody’s Spectacular í Reykjavík, 15.-18. nóvember 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.