Veiði

99 laxar á einum degi í Miðfjarðará

Karl Lúðvíksson skrifar
Það veiddust 99 laxar í Miðfjarðará í gær
Það veiddust 99 laxar í Miðfjarðará í gær Mynd: Miðfjarðará Lodge FB
Veiðin í Miðfjarðará fór vel af stað í sumar en það sem flestir hafa verið að bíða eftir er augnablikið þegar veiðin tekur þetta ævintýralega stökk sem virðist gerast á hverju ári.

Í gær er víst óhætt að segja að veiðin í ánni hafi verið frábær en samtals komu 99 laxar á land á deginum á stangirnar tíu.  Góðar göngur eru í ánna og það er farið að bera vel á eins árs laxi en að sama skapi virðist hlutfall af tveggja ára laxi ennþá vera með besta móti.  Laxinn er vel haldinn og ber þess merki að hafa haft það gott í sjónum síðusta ár.  Síðasta vika gaf um 300 laxa og það styttist í að 1000 laxa múrinn verði rofinn.

Samanburður á veiðinni á þessum tíma milli áranna 2015 og 2016 gefur það til kynna að þetta verði gott ár í Miðfirðinum því árið 2015 var veiðin á sama tíma um 700 laxar og þá var heildarveiðin 6028 laxar.  Sumarið 2016 var heildarveiðin 4338 laxar á á sama tíma á því ári voru komnir 1077 laxar.  Miðað við þetta virðist Miðfjarðará stafna í 4000-5000 laxa sumar hið minnsta og heldur þá áfram sá frábæri gangur sem hefur verið í ánni síðustu ár.








×