Körfubolti

Jón Arnór: Þeir eru bara betri en við eins og staðan er í dag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Arnór var ekki sáttur við leik KR í kvöld.
Jón Arnór var ekki sáttur við leik KR í kvöld. vísir/eyþór
„Það vantaði að nokkur skot myndu detta. Við vorum mikið að bakka með þá inn í teig og vorum ekki að setja niður skotin okkar,“ segir Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, eftir leikinn í kvöld.

Grindavík vann frábæran sigur á KR, 79-66, í kvöld og jafnaði einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í 2-2. Oddaleikur er framundan í DHL.

„Þetta lítur bara ekkert voðalega smurt út hjá okkur eins og staðan er. Þeir eru að loka vel á okkur og þegar skotin detta ekki þá er þetta svolítið stíft.“

Jón segir að augnablikið eigi eftir að koma fyrir KR á sunnudaginn, hann finnur það.

„Við erum bara að fara í leik fimm og við verðum einbeittir þá. Við höldum bara áfram að keyra á þetta, reynum að brjóta þá niður og reynum að verða betri.“

Hann segir að KR-liðið hefði átt að fylgja eftir góðri byrjun á síðari hálfleiknum.

„Þeir náðu að spila vel fram á síðustu sekúndu og við náðum ekki að standast það. Við mættum bara mjög góðu Grindavíkurliði og þeir eru bara betri en við eins og staðan er í dag.“

Jón ætlar ekki að gefast upp og lofaði að mæta vel gíraður í næsta leik.

„Oddaleikir eru einstakir og það vita allir. Þetta er frábært fyrir körfuboltann á Íslandi, þó svo að við ætluðum heldur betur að vinna hér í kvöld, þá vilja allir oddaleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×