Viðskipti innlent

Ákvörðunin kom á óvart

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Samkeppniseftirlitið ógilti kaup Haga á Lyfju.
Samkeppniseftirlitið ógilti kaup Haga á Lyfju. vísir/valli
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að ógilda samruna smásölufélagsins Haga og lyfsölufélagsins Lyfju hafi komið á óvart. Hann segir að íslensk fyrirtæki verði að geta brugðist við aukinni samkeppni. Sameining sé ein leið til að ná fram hagræðingu.

Samtök atvinnulífsins hafa tekið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá í síðustu viku til sérstakrar skoðunar. Eins og kunnugt er var niðurstaða stofnunarinnar sú að með kaupum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði. „Skaðleg samþjöppun“ hefði orðið á mörkuðum sem félögin starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Forystumenn í atvinnulífinu hafa margir gagnrýnt niðurstöðuna. Þeir hafa bent á að vegna aukinnar netverslunar og innreiðar Costco til landsins standi íslenskar verslanir frammi fyrir breyttu samkeppnisumhverfi. Þær verði að bregðast við því, mögulega með hagræðingu og sameiningu. Áhyggjuefni sé ef Samkeppniseftirlitið ætli að standa í vegi fyrir því.

Halldór Benjamín tekur undir það. Ekki sjái fyrir endann á breytingum á samkeppnisumhverfinu. Fyrirtæki verði að geta brugðist við.

„Ég er talsmaður þess að það náist fram aukin hagræðing í íslensku atvinnulífi og sameiningar og yfirtökur eru sannarlega ein leið til þess. Aukin samkeppni og hagræðing, með stærri einingum, er það sem kemur neytendum til góða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×