Íslenskar konur keppast nú við að semja uppskriftir að nýjum hamborgurum á matseðil Hamborgarafabrikkunnar. Veitingastaðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að nefna hamborgara sína nær einungis í höfuðið á körlum en einn eigenda Fabrikkunnar sagði í samtali við Vísi í gær að nöfn borgaranna vísuðu iðulega í höfunda uppskriftanna.
Sigmar Vilhjálmsson svaraði gagnrýni um skort á konum á matseðli Fabrikkunnar meðal annars á þann veg að fyrirtækið hafi það til hliðsjónar, þegar kemur að nafngiftum á hamborgurum, að uppskriftirnar komi frá mönnunum sjálfum.
„Uppskriftin að Stóra BÓ kom frá Björgvini Halldórssyni, uppskriftin frá Hemma kom frá Hemma og uppskriftin frá Aroni kom frá Aroni, þannig að þetta er ekki eins og við séum að setja saman hamborgara og gefa honum nafn heldur eru þetta hamborgaraáhugamenn sem eiga sér sinn uppáhalds hamborgara, sem þeir deila með okkur,“ sagði Sigmar í viðtali við Vísi í gær.
„Ef við værum að fá margar tillögur frá konum að hamborgurum þá myndum við án efa skíra í höfuðið á þeim.“
Íslenskar konur tóku Sigmar á orðinu en þær hafa margar lagt til sínar eigin uppskriftir auk hugmynda að konum sem væru vænlegar til borgarasmíða.
Söngkonan Salka Sól Eyfeld var á meðal þeirra sem tók málin í sínar hendur en sjálf er hún vanur pítsuhönnuður fyrir Dominos.
Þá leggur Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur bæði til konurnar og nöfnin.
Grínistinn Bylgja Babýlons vill franskar í sinn hamborgara.
Greinilegt er að Sóleyjar-Tómasdóttur-borgarinn, að mati Sóleyjar sjálfrar, yrði öllu matarmeiri en borgari Hildar Lilliendahl.
Hægt er að nálgast fleiri hamborgarauppskriftir undir myllumerkinu #húnborgarinn á Twitter.
Stjarnan
KR