Viðskipti innlent

Íslenskt app hjálpar börnum að læra tónlist

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Margrét Júlíana, framkvæmdastjóri Rosamosa, fylgir eftir hröðum uppgangi fyrirtækisins. Á í samstarfi um Mussila víða um heim.
Margrét Júlíana, framkvæmdastjóri Rosamosa, fylgir eftir hröðum uppgangi fyrirtækisins. Á í samstarfi um Mussila víða um heim. vísir/ernir
Íslenska smáforritið Muss­ila, sem er hannað til þess að kenna börnum grunnatriði í tónlist í gegnum skapandi leik, hefur vakið mikla eftirtekt víða um heim. Nýleg rannsókn á smáforritinu gefur til kynna mikla gagnsemi þess. „Rannsóknin fór fram í Eistlandi og í Garðabæ,“ segir Margrét Júlíana Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Rosamosa sem framleiðir smáforritið.

Í rannsóknarverkefni sem var samstarfsverkefni grunnskóla í Garðabæ, þriggja skóla í Eistlandi og vefrannsóknafyrirtækisins Netlife Research í Noregi voru börn prófuð í tónfræði. Prófið hannaði Atli Ingólfsson, prófessor við Listaháskóla Íslands. „Atli hafði ekki séð leikina áður en hann bjó prófið til. Prófið var lagt fyrir 120 börn í Eistlandi á aldrinum 8-9 ára,“ segir Margrét Júlíana. Prófið var svo lagt aftur fyrir börnin þremur vikum seinna en þá hafði hópnum verið skipt í tvennt. Fyrri hópurinn fékk sömu meðaleinkunn og áður eða 58,9 af hundraði. Einkunn seinni hópsins var 20,2% hærri en sá hópur hafði nýtt Mussila-smáforritið til viðbótar við hefðbundna tónlistarkennslu.

„Niðurstöðurnar styðja við markmið okkar, við viljum hjálpa börnum að læra í gegnum leik og það er mjög merkilegt að börnin sem notuðu Mussila leystu meira að segja betur úr spurningum um efni sem er ekki kennt í leikjunum. Skilningur barnanna varð dýpri og í víðara samhengi,“ segir Margrét Júlíana sem segir að í allri kennslu sé mikilvægt að virkja rökhugsun barnsins sjálfs.

Leikurinn hefur notið mikillar velgengni og hlotið lof gagnrýnenda. Hann hlaut meðal annars fimm stjörnu dóm í BBC Music Magazine. Þá var hann tilnefndur í Nordic Game Awards 2017. Fyrirtækið Rosamosi var tilnefnt fyrir hönd Íslands í Nordic Startup Awards. Í sumar gerði fyrirtækið samning við bresku leikfangakeðjuna Hamleys um þróun og dreifingu á tónlistarnámskeiðum og öðrum vörum sem byggja á leikjunum. Smáforritið hefur einnig vakið athygli í Kína.

„Þetta verða tónlistarnámskeið sem verða kennd í verslunum Hamleys. Við erum einnig komin í samstarf við verslanir í Kína,“ segir Margrét frá.

„Við stefnum að því að verða leiðandi vörumerki á sviði tónlistarefnis fyrir börn. Við viljum að það sé leikur að læra og því förum við í samstarf við fyrirtæki sem hafa sama markmið og við,“ segir Margrét Júlíana. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×