Enski boltinn

„Martial þarf að sýna þolinmæði“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
Anthony Martial hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu. vísir/getty
Mikael Silvestre, fyrrverandi varnarmaður Manchester United, hvetur samlanda sinn Anthony Martial til að gefast ekki upp þrátt fyrir lítinn spiltíma þessar vikurnar og ekki leitast eftir því að komast frá félaginu í sumar.

Franski landsliðsmaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið og fáir eru leikirnir í byrjunarliðinu. Martial, sem var markahæsti leikmaður United á síðustu leiktíð með 17 mörk, er aðeins búinn að skora sex mörk í vetur og hefur ekki spilað síðustu þrjá leiki.

Silvestre, sem sjálfur vann níu stóra titla með Manchester United, vill ekki að Martial geri það sama og annar Frakki, Paul Pogba, og yfirgefi Old Trafford.

„Martial var markahæstur á síðustu leiktíð en núna er hann annar leikmaður. Honum gekk ekki vel á EM í fyrra og svo kom upp þetta atvik þar sem Zlatan fékk númerið hans. Hann var ekki ánægður með það,“ segir Silvestre í viðtali við talkSPORT.

„Það er alltaf talað um það, að það getur verið erfitt að fylgja eftir góðri fyrstu leiktíð. Við verðum samt að átta okkur á því að hann er ungur og er enn að læra.“

„Martial þarf að sýna þolinmæði og ekki gera eins og Pogba og fara til Juventus. Hann þarf að halda áfram og sýna að hann er alvöru karakter. Martial þarf að sýna hugrekki og leggja meira á sig,“ segir Mikael Silvestre.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×