Lífið

Býður konum í kakóhugleiðslu sem opnar hjartað

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í Yogastúdíóinu Ánanaustum heldur Kamilla Ingibergsdóttir reglulega kakóathöfn þar sem drukkið er kakó og hugleitt. Kamilla starfaði lengi vel fyrir Iceland Airwaves og ferðaðist um heiminn með hljómsveitinni Of monsters and men.

En nú hefur hún algjörlega skipt um stefnu.

„Ég kynntist þessu kakói þegar ég þurfi á því að halda. Ég vann of mikið og þurfti komast úr yfirsnúning og nú langar mig til þess að kynna það fyrir fleirum," segir hún og það gerir hún með því að bjóða upp á kakóhugleiðslu.

Áður en hugleiðslan byrjar er kakó frá regnskógum Guatemala drukkið en Kamilla hefur tvisvar farið þangað út til að kynnast kakóplöntunni betur og flutti með sér birgðir til landsins.

Kamilla búin að fylla ferðatöskuna á leið heim frá Guatemalamynd/kamilla
Kakóið er ríkt af magnesíum og andoxunarefnum, eykur súrefni til heilans og skerpir fókus.

„Ef ég fengi að ráða myndi hvert mannsbarn drekka einn kakóbolla á hverjum degi," segir hún um leið og hún skenkir fréttamanni kakó í bolla.

Og hvað á ég að finna þegar ég drekk þetta? Hamingjuna?

„Já, ég held það bara. Alla vega fann ég hamingjuna þegar ég drakk þetta," svarar Kamilla hlæjandi.



Kamilla í Guatemala í janúar síðastliðnum
Kakóið færir manni kannski ekki hamingjuna á silfurbakka en hjálpar til við hugleiðsluna sem kemur á eftir drykkjunni.

„Við gætum alveg gert þessa athöfn án þess að vera með kakóið. En það er yndislegur hjálpari sem hjálpar manni að opna hjarta sitt, að fókusa og opna á ýmsa hluti sem maður myndi annars ekki leyfa sér að opna á.“

Hvaða áhrif hefurðu séð? „Hlátur og grátur. Oft geymum við svo mikla streitu, gremju og alls konar tilfinningar í líkamanum og oft kunnum við ekki að losa um það. En kakóið hjálpar okkur að losa um það án þess að við þurfum að skilgreina sérstaklega hvað við erum að losa.“



Kakóplantan í frumskógum Guatemala
Kamilla segir kakóið hafa hjálpað sér að finna hvernig hún vilji lifa lífinu.

„Ég ákvað það að spurja mig að einni spurningu áður en ég geri nokkuð í lífinu, og það er veitir þetta mér hamingju? Og ef svarið er nei, þá einfaldlega geri ég það ekki.“

Og það hefur virkað vel fyrir þig? „Já,“ svarar Kamilla skellihlæjandi.

Kamilla hefur hingað til haft athafnir fyrir konur en ætlar að bjóða upp á blandaða kakóathöfn um páskana. Nánari upplýsingar um athafnir, tíma- og staðsetningar má finna á Tix. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×