Lífið

Rán Flygenring hannar táknrænt páskaegg fyrir UN Women

Guðný Hrönn skrifar
Rán Flygenring lagði verkefni UN Women lið.
Rán Flygenring lagði verkefni UN Women lið.
Teiknarinn Rán Flygenring er hönnuður páskaeggs sem UN Women setur í sölu í dag á vef sínum. Páskaeggið er páskaskraut sem hægt er að prenta út, skreyta og hengja upp.

„Páskaegg UN Women er fyllt með vernd, öryggi, sálrænni aðstoð og atvinnutækifærum fyrir konur í Mósul í Írak en skelfilegt ástand ríkir í Mósul. Fólki á flótta frá Mósul fer fjölgandi með hverjum deginum en um 300 þúsund manns eru á vergangi eftir að hafa flúið borgina og þar af helmingur konur. UN Women starfrækir griðastaði fyrir konur og börn þeirra í flóttamannabúðum í útjaðri Mósul í Hamam Al-Aleel búðunum. Á griðastöðunum fá konurnar vernd og öryggi, sálræna aðstoð, áfallahjálp og atvinnutækifæri til að sjá fyrir sér og börnum sínum. Með því að kaupa páskaegg UN Women styður þú við uppbyggingu griðastaða í flóttamannabúðum í útjaðri Mósul og veitir þar með konum á flótta von og kraft,“ segir í tilkynningu frá UN Women.

„Þetta er jafnréttisegg sem er samsett af tveimur fuglum sem lifa í fullkominni harmoníu. Í jafnrétti felst að stilla saman strengi og leyfa öllum að njóta sín og dafna,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og hvetur alla til að kaupa páskaegg UN Women og leggja konum á flótta frá Mósul lið. Þess má geta að páskaeggið fæst á www.unwomen.is og kostar 1.900 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.